Á laugardag, kl. 13:30 leika Haukastelpur í úrslitum Powerade bikarsins þegar að liðið mætir Fram. Það er því vert að kíkja aðeins á sögu Haukakvenna í bikarúrslitum.
Fyrsta skiptið sem Haukastelpur komust í bikarúrslit var árið 1997 en þá var mótherjinn Valur. Haukastúlkur unnu þann leik 16 – 13 eftir að hafa verið yfir 9 – 6 í hálfleik en leikurinn var spennandi allan tímann en Haukastúlkur voru á endanum sterkari og skoruðu síðustu 3 mörk leiksins. Markahæstar Haukastelpna í leiknum voru þær Judit Esztergal og Hulda Bjarnadóttir með 4 mörk. Þessi sigur markaði tímamót hjá kvennaliði Hauka en þetta var fyrsti bikarmeistaratitill Haukakvenna og náðist hann í fyrstu tilraun.
Næst komust Haukastúlkur í úrslit tveimur árum síðar og mótherjinn það skiptið var Fram og buðu Haukastelpur upp á annan spennuleikinn. En ekki fór það eins og í fyrra skipti því í þetta skipti þurftu Haukastelpur að lúta í lægra haldi fyrir Fram 17 – 16. Í þeim leik var það markmaður Fram sem gerði útslagið en Haukastelpur voru með skelfilega skotnýtingu í leiknum.
Bikarúrslitin náðust næst árið 2001 og mótherjinn það árið var ÍBV og enn eina ferðina var þetta spennuþrunginn bikarslagur en leikurinn fór í framlengingu eftir að jafnt hafi verið að loknum venjulegum leiktíma 17 – 17. Aftur var það markvörður mótherjanna sem var eitthvað fyrir Haukastúlkum sem skoruðu aðeins 2 mörk í allri framlengingunni og töpuðu 21 – 19.
Aftur voru Haukastelpur mætta í höllina tveimur árum seinna en árið 2003 mættu þær aftur ÍBV og mættu Haukastúlkur grimmar til leiks og staðráðnar í því að hefna fyrir tapið tveimur árum áður. Leikurinn var jafn og spennandi allan leikinn og voru Eyjastúlkur yfir í hálfleik 11 – 10 en í seinni hálfleik náðu Haukakonur að komst betur inn í leikinn og unnu að lokum 23 – 22. Harpa Melsteð var markahæst Haukakvenna í leiknum með 5 mörk og fagnaði þar öðrum bikartitli sínum og Haukakvenna.
Árið eftir mættust liðin á ný í bikarúrslitum og þá náðu Eyjakonur að hefna fyrir tapið árinu á undan með 35 – 32 sigri eftir að hafa verið yfir 17 – 16 í hálfleik, en Eyjakonur sem voru með feiknar öflugt lið á þessum tíma voru yfir nær allan leikinn. Markahæstar Hauka voru Ramune Pekarskyté með 11 mörk og Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir skoraði 9 mörk.
Árið 2006 komust Haukastúlkur enn ný í bikarúrslit en eins og svo oft á þessum árum var mótherjinn ÍBV. Haukastúlkur komur ákveðnar til leiks og staðráðnar í því að láta ekki ÍBV vinna sig eina ferðina enn og voru yfir 12 – 10 í hálfleik og héldu þær svo forskotinu út leik og unnu að lokum 29 – 25, þar sem Hanna Guðrún Stefánsdóttir átti stórleik og skoraði 14 mörk.
Ári seinna komust Haukastúlkur aftur í úrslitaleikinn þar sem mótherjinn var Grótta. Haukarstúlkur unnu þann leik 25 – 22 eftir að hafa verið yfir nánast allan leikinn og unnu þar með sinn 4 bikarmeistaratitil. Markahæstar Haukastúlkna í leiknum voru Ramune Pekarskyté og Hanna Guðrún Stefánsdóttir með 7 mörk hvor.
Það liðu síðan 11 ár þar til næsti bikarúrslitaleikur Haukstúlkuna kom sem var árið 2018 en það er jafnframt síðasti úrslita leikur Haukastúlkna. Mótherjinn í þeim leik var sá sami og er á laugardaginn eða Fram. Haukastúlkur náðu alls ekki að sýna sitt besta í þeim leik en Fram vann stórsigur 30 – 16 eftir að hafa verið yfir í hálfleik 14 – 6. Markahæst í leiknum var Berta Rut Harðardóttir með 9 mörk.
Sagan er því þannig að kvennalið Hauka hefur komist í bikarúrslit 8 sinnum og unnið bikarinn í 4 af þessum skiptum en síðast vannst titillinn 2007. Í ár eru stelpurnar staðráðnar í að breyta því á laugardag Haukastúlkur mæta Fram í úrslitaleiknum kl. 13:30 á Ásvöllum. Hægt er að nálgast miða á leikinn á appinu, Stubbur.
Mætum öll í rauðu og styðjum Hauka til sigurs í bikarnum. Áfram Haukar!