Í gær, þriðjudag var dregið í undanúrslit Coca-Cola bikarsins en þriðja árið í röð eiga Haukar bæði karla- og kvennalið sín í undanúrslitum.
Til þess að gera langa sögu stutta þá drógust liðin þannig í undanúrslitum að efstu tvo lið Olís-deildanna mætast hjá báðum kynum. Haukar eiga bæði lið sín í efstu tveimur sætum deildanna og er karlaliðið í 1. sæti og mæta þeir því Val sem er í 2. sæti á meðan kvenna liðið er í 2. sæti og mæta þær því Gróttu sem er í 1. sæti.
Kvennaliðið hefur leik fimmtudaginn 25. febrúar kl. 19:00 og leika karlarnir svo daginn eftir kl. 17:15 og er úrslitaleikurinn svo leikinn laugardaginn 27. febrúar. Í hinum undanúrslitaleikjunum þá mætast Stjarnan og Fylkir í kvennaflokki og Stjarnan og Grótta hjá körlunum.
Nánari upplýsingar og umfjöllun um þessa leiki kemur í næstu viku en áður en liðin leika þessa leiki eiga bæði lið eftir að spila einn leik í deildinni en þeir leikir verða leiknir á laugardaginn, 20. febrúar. Þá bjóða Haukar upp á tvíhöfða í Schenkerhöllinni og er um stórleiki hjá báðum liðum að ræði því stelpurnar mæta FH á meðan strákarnir mæta ÍBV, það eru stelpurnar sem hefja veislunna kl. 14:00 og svo kl. 16:00 er komið að strákunum. Það er því um að gera fyrir Haukafólk að fjölmenna á þessa stórleiki til að hita sig upp fyrir bikarhelgina viku seinna. Áfram Haukar!