Undanfarin misseri hafa forráðamenn Hauka unnið að undirbúningi að byggingu knatthúss að Ásvöllum. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þörfina fyrir bættri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar á Ásvöllum, en þörf fyrir byggingu knatthúss hefur lengi legið fyrir. Nú er hins vegar ljóst að stórt upphitað knatthús verður byggt á Ásvöllum.
Síðastliðinn föstudag fóru fulltrúar Hauka og lykilstjórnendur Hafnarfjarðarbæjar í skoðunarferð til að kynna sér byggingu nokkurra knatthúsa sem þegar hafa verið reist. Við fengum góðar mótttökur og kynningar á byggingu og notagildi knatthúsa, en farið var á Akranes, í Egilshöllina og Fífuna. Haukar hafa þegar sett af stað deiliskipulagsvinnu við undirbúning að byggingu knatthússins. Í ár verður unnið að forhönnun hússins og víða leitað fanga til að byggingin uppfylli sem best þær kröfur sem Haukar og íbúar kalla eftir. Haukar leggja mikla áherslu á að saman fari metnaður í uppbyggingu á Ásvöllum og að horft sé til þjónustuframboðs í takt við ört stækkandi íbúabyggð.
Með vísan í ofanritað er ánægjulegt að horfa til þess að innan örfárra missera verði risið knatthús í fullri stærð að Ásvöllum.
Áfram Haukar!