Dúfa Dröfn í Hauka

Haukar Í vikunni skrifaði nýr leikmaður undir samning við meistaraflokk kvenna. Og því er orðið ljóst að fjórir nýjir leikmenn hafa skrifað undir samning við liðið á undanförnum vikum.

Leikmaðurinn sem skrifaði undir samning við Hauka er Dúfa Dröfn Ásbjörnsdóttir, 26 ára markvörður sem lék með Landsbankadeildarliði Keflavíkur á síðasta tímabili. Hún skrifaði undir tveggja ára samning við Hauka.

Dúfa hóf meistaraflokksferil sinn með Breiðablik árið 2002 og lék þar í þrjú ár. Hún skipti síðan yfir í Keflavík fyrir sumarið 2007 og lék hún als 18 leiki með Keflavík í þau tvö ár sem hún lék þar.

„Þetta er gríðarlegur fengur fyrir liðið að fá svona góðan og traustan markvörð sem Dúfa er,“ sagði Salih Heimir um félagskiptin og hann hélt áfram „Hún var í mikilli samkeppni við Jelenu Petrovic (fyrrum markvörð Hauka) um markvarðarstöðuna í Keflavíkurliðinu og vann hún sig inn í byrjunarliðið um mitt sumar og lék átta leiki í Landsbankadeildinni en hún varð fyrir meiðslum undir lok móts og gat því ekki klárað tímabilið.“

Dúfa Dröfn er mjög fjölhæfur íþróttamaður því á veturnar leikur hún körfubolta með Hamar sem er þessa stundina á toppi Iceland-Express deildarinnar en Dúfa er jafnframt fyrirliði liðsins „Dúfa er mikill íþróttamaður og topp manneskja, ég hef mikla skoðun á henni sem leikmanni og ég get varla lýst því hversu ánægður ég er að vera búinn að fá hana.“

Nanna Rut Jónsdóttir lék í marki Hauka seinni parts síðasta sumars en hún var á láni frá Stjörnunni, Salih Heimir ákvað að fá Dúfu Dröfn í Hauka þar sem hann hafði ekkert heyrt í Nönnu „Ég veit ekki hvað verður með hana, hún hefur ekkert látið í sér heyra og því ákvað ég að hafa samband við Dúfu og hún hafði áhuga að koma,“ sagði Salih Heimir Porca að lokum í samtali við Haukar.is en hann hefur verið duglegur að næla sér í leikmenn úr Landsbankadeildinni.

Frekari tíðindi um leikmannamál verða birt hér á síðunni við fyrsta tækifæri.