Haukar urðu fyrir miklu áfalli á dögunum, er markvörður liðsins til þriggja ára, Daði Lárusson ákvað að söðla um og ganga til liðs við FH að nýju, þar sem hann ólst upp og lék allan sinn ferilinn áður en hann sá loks ljósið. Hann hefur nú ákveðið að ljúka ferlinum á þeim stað þar sem hann hóf hann og sendum við Daða góðar kveðjur og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni.
Daði gekk til liðs við Hauka fyrir sumarið 2010 þegar Haukar spiluðu í fyrsta sinn í Pepsi-deild karla í 31 ár, félagsskipti sem mörgum brá heldur betur við að sjá enda var Daði fyrirliði FH árum saman og lyfti Íslandsmeistaradollunni í ófá skiptin fyrir þá. Á þeim tíma sem Daði var í Haukum, kom hann sér vel fyrir í leikmannahópnum, hann var til að mynda í leikmannaráði og sá um hitt og þetta hjá liðinu, hann var greinilega ekki kominn til Hauka til að vera einhver áhorfandi heldur var hann þáttakandi og bera Haukamenn söguna góða af honum, enda algjör toppmaður.
Eftir að landsliðsmarkvörður Íslendinga, Gunnleifur Gunnleifsson og jafnframt fyrrum markmannsþjálfari Hauka, gekk til liðs við Breiðablik frá FH, þá opnaðist laus staða hjá FH sem Daði ákvað að grípa, enda eins og hann hefur sagt í viðtölum, vildi hann klára ferilinn hjá FH. Hann segist þó skilja við Hauka með söknuði,
,,Ég skil við Haukana með hlýjar og góðar minningar og þakka öllum þeim sem ég starfaði með á þessum tíma, hvort sem það eru leikmenn, stjórn eða stuðningsmenn. Þetta er frábært félag og á framtíðina fyrir sér,“ sagði Daði til að mynda við Fótbolti.net eftir að það varð (Staðfest) að hann væri búinn að skrifa undir hjá FH, hann talaði einnig um að tíminn hjá Haukum hafi endurnýjað lífdaga sína í fótboltanum,
,,Ég er kominn á þann tíma að maður tekur eitt ár í einu. Ég hef ekki verið þekktur fyrir stórar yfirlýsingar og ég ætla ekki að byrja á því í dag, hvort ég eigi 1, 2 eða 3 ár eftir. Ég hef ennþá jafngaman að þessu og þessi tími hjá Haukum gaf mér endurnýjun lífdaga í fótboltanum,“ sagði Daði.
Við fengum Sigurbjörn Örn Hreiðarsson, spilandi aðstoðarþjálfara Hauka til að rétt tjá sig aðeins um þann missi, að missa Daða,
,,Daði er farinn og hans verður saknað, bæði sem leikmanns og persónu. Mikill öðlingur. Við munum hinsvegar fá annan markmann á svæðið, það er ljóst. Magnús Þór Gunnarsson er til staðar en það er ekki nóg að hafa einn markmann. Það verða a.m.k. að vera tveir og það verða tveir markmenn í Haukum næsta sumar,“ sagði Sigurbjörn Örn um markmannsmálin sem munu skýrast á næstu dögum.