Diljá, Sierra og Tara semja við knattspyrnudeildina

Meistaraflokkur kvenna hefur fengið góðan liðsstyrk fyrir komandi keppnistímabil í Inkasso deildinni en í kvöld skrifuðu þær Diljá Ólafsdóttir, Sierra Marie Lelii og Tara Björk Gunnarsdóttir undir samninga við félagið.

Tara Björk er Hauka fólki að góðu kunn enda á hún að baki alls 81 meistaraflokks leik með Haukum frá árinu 2012. Tara spilaði lítið á síðasta tímabili þar sem hún eignaðist sitt fyrsta barn fyrir 10 mánuðum síðan en við fögnum því svo sannarlega að hún hafi ákveðið að taka slaginn með okkur næsta sumar. Samningurinn við Töru er til eins árs.

Jakob Leó Bjarnason, þjálfari Hauka, segir að Tara sé mikill liðsstyrkur fyrir liðið, bæði á vellinum og í klefanum en Tara leikur yfirleitt sem varnartengiliður. ,,Tara er reynslumikill leikmaður með Haukahjarta og það er mikið gleðiefni að við munum fá að njóta krafta hennar áfram.“

 

Diljá gerði eins árs samning við Hauka og kemur til félagsins frá Þrótti Reykjavík en hún á að baki 106 meistaraflokksleiki fyrir KR, HK/Víking, Aftureldingu og Þrótt. Diljá spilar sem miðvörður og kemur með mikla reynslu inn í ungt Haukalið.

Jakob Leó segir að Diljá komi með ómetanlega reynslu og leiðtogahæfni inn í lið Hauka. „Diljá er eitt af púslunum sem við þurftum til að geta gert ungt Haukalið enn betra og að auki er hún mikill leiðtogi, enda bar hún fyrirliðabandið hjá Þrótti 2017“.

 

Sierra gerði tveggja ára samning við Hauka en hún kemur einnig frá Þrótti. Hún spilar sem framliggjandi miðjumaður eða framherji og gerði 9 mörk í 21 leik með Þrótti sumarið 2017.

Jakob Leó segir að Sierra muni koma með nýja vídd inn í sóknarleik liðsins. „Sierra er lunkinn leikmaður sem gerir aðra leikmenn í kringum sig betri. Hún getur skorað mörk og skapað fyrir samherja sína.“

Áfram Haukar. Félagið mitt.