Boltinn fer aftur af stað í Domino‘s deild karla á morgun fimmtudag þegar Haukar mæta systrafélaginu Val í Vodafone-höllinni. Haukaliðið kom skemmtilega á óvart í fyrri hluta tímabilsins og luku leik fyrir ofan miðja deild, eða í 5. sæti. Liðið hefur nú þegar jafnað árangurinn frá því tímabilið 2011-2012, þegar liðið spilaði síðast í efstu deild, þ.e. unnið sex leiki og innbyrgt 12 stig.
Terrence Watson hefur látið mikið fyrir sér fara í deildinni og leiðir helstu tölfræði lista. Hann er efstur í skoruðum stigum (25,5), fráköstum (15.5), vörðum skotum (3,2) og í framlagi (34,5).
Emil Barja leiddi listann yfir flestar stoðsendingar til lengri tíma en undir lokinn tók Justin Shouse efsta sætið. Munurinn er þó ekki mikill eða aðeins 0,06 stoðsendingar að meðaltali sem skilur þá kappa að og má segja að Justin hafi ekki þurft að hafa mikið fyrir því að fara upp fyrir Emil þar sem hann spilaði ekki síðustu tvo leiki deildarinnar fyrir áramót og skekkir það myndina örlítið.
Árangur liðsins á síðasta ári hefur verið frábær og eftir því hefur verið tekið. Á gamlárskvöld fór fram val á íþróttafólki og þjálfara Hauka og hrepptu körfuknattleiksmenn/konur öll þau verðlaun. Emil Barja var valinn Íþróttamaður Hauka, Gunnhildur Gunnarsdóttir leikmaður kvennaliðsins var valin Íþróttakona Hauka og Ívar Ásgrímsson var að lokum valinn Þjálfari ársins.
Stuðningur við liðið hefur verið til fyrirmyndar nánast hvar sem liðið spilar hvort sem er heima eða úti og vonandi heldur það áfram. Það þarf ekkert að fara í feluleik með það að stuðningur við liðið hefur átt stóran þátt í gengi liðsins og í janúarmánuði reynir á.
Alls eru fimm leikir hjá liðinu í janúar og þar af aðeins einn heimaleikur. Haukar byrja eins og áður segir gegn Val á morgun, fimmtudag, í Vodafone-höllinni, mæta svo Grindavík í Röstinni þann 16., spila gegn Þór Þorl. í Powerade-bikarnum þann 20. í Iceland Glacial-höllinni, fá ÍR í heimsókn á Ásvelli þann 23. og halda svo í Hólminn og spila við Snæfellinga þann 30. Það er því nóg framundan og um að gera að koma sér aftur í körfuboltagírinn eftir gott jólafrí.
Leikur Vals og Hauka hefst kl. 19:15 á morgun, fimmtudaginn 9.1.2014.