Mfl. kvenna í Dominos deildinni fær Íslandsmeistarana úr Keflavík í heimsókn á laugardag og hefst leikurinn kl. 16:30 í Schenkerhöllinni.
Stelpurnar hafa verið að spila vel í byrjun tímabils en misstigu sig í síðasta leik á móti nýliðunum úr Kópavogi, Breiðabliki. Stelpurnar mættu ekki tilbúnar til leiks og voru að spila langt undir pari og má segja að engin leikmaður liðsins hafi náð sér á strik í leiknum. Varnarleikur liðsins var mjög slakur og fengu þær til að mynda um 60 stig á sig í fyrri hálfleik.
Ljóst er að stelpurnar þurfa að mæta ákveðnar til leiks ætli þær sér að ná í sigur á móti sterku liði Íslandsmeistarana.
Keflvíkingar hafa mikla breidd og geta spilað á mörgum leikmönnum. Þær eru grimmar í sínum varnarleik og ef þær hitta vel fyrir utan 3ja stiga línuna eru þær illviðráðanlegar.
Haukaliðið verður að vera ákveðið í sínum aðgerðum og mæta ákveðnar frá fyrstu mínútu og verja heimavöllinn. Deildin er gríðarlega jöfn og öll lið að ná mikilvægum sigrum og því er heimavallasigur mikilvægur.
Við hvetjum alla til að mæta og styðja Haukaliðið áfram í baráttunni. Stuðningur úr pöllunum er gríðarlega mikilvægur fyrir liðið.