Eitt sterkasta lið Svíþjóðar í heimsókn

haukaralingasÞað verður sannkallaður stórleikur hjá  meistarflokki karla í EHF-bikarnum á morgun, laugardag, þegar sænska liðið Alingsås HK kemur í heimsókn í DB-Schenkerhöllina á Ásvöllum kl. 16:00. Strákarnir tryggðu sér þátttökurétt í 2. umferð með því að vinna gríska liðið A.C. Diomidis Argous í 1. umferð nokkuð örugglega 61 – 46 samtals í tveimur leikjum. En þess má til gamans geta að leikirnir gegn Alingsås HK verða leikir númer 109 og 110 hjá mfl.karla í Evrópukeppnum frá árinu 1980.

Alingsås HK er eitt sterkasta lið Svíþjóðar og hefur liðið leikið til úrslita um titilinn síðustu tvö ár en beið lægri hlut í bæði skipti. Þeir hafa tvisvar sinnum orðið sænskir meistara fyrst árið 2009 og svo síðast árið 2014. Fyrir tímabilið var þeim spáð einu af toppsætunum í deildinni og hafa þeir staðið undir því í upphafi móts og unnið alla þrjá leiki sína og það nokkur örugglega. Liðið er eingöngu byggt upp af sænskum leikmönnum og hafa margir þeirra verið viðloðandi sænsku unglingalandsliðin sem og A-landsliðið og ber helst að nefna miðjumanninn Jesper Konradsson en hann var í landsliði Svía á EM í Janúar síðastliðnum. Þess má einnig geta að liðið lék í riðlakeppni meistaradeildarinnar tímabilið 2014- 2015 og er kjarninn í liðinu í dag nánast sá sami og var þá.

Það má því með sanni segja að Haukastrákarnir séu að mæta hörkuliði og þurfa þeir að ná toppleikjum gegn Svíunum ætli þeir sér áfram í keppninni. Þá getur stuðningur áhorfenda haft mikið um að segja og því er um að gera fyrir Haukafólk og aðra handboltaáhugamenn að fjölmenna á leikinn og styðja við bakið á strákunum í baráttunni um að komast lengra í EHF-bikarnum þetta tímabilið en leikurinn er eins og áður segir kl. 16:00 í DB-Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Áfram Haukar!