Bakvörðurinn Elvar Steinn Traustason er snúinn aftur í Hafnarfjörðinn eftir árslanga dvöl í Danaveldi. Elvar sem stundaði nám við háskóla í Aarhus hyggst leika með Haukaliðinu á komandi tímabili og sagði hann í samtali við heimasíðuna að ekkert annað hafi komið til greina en að spila í Hafnarfirðinum.
Mynd: Elvar Steinn er snúinn aftur í fjörðinn – Stefán Þór Borgþórsson
Elvar var einn af lykilmönnum Haukaliðsins sem lék undir stjórn Henning Henningssonar tímabilið 2007-2008. Hann skoraði 9,4 stig og tók 67 fráköst á þeim 326 mínútum sem hann lék með liðinu.
„Ég er fyrst og fremst Haukamaður og að mínu mati kom ekkert annað til greina en að spila með þeim þegar ég kæmi heim frá Danmörku” sagði Elvar og lýst bara vel á veturinn.
„Já mér lýst vel á að spila undir stjórn Péturs og stefnan er sett á að tryggja sér sæti í IE deildinni næsta vetur. Mér finnst eiginlega ótrúlegt að það hafi ekki gerst síðasta vetur en svona er þetta” sagði hinn síkáti Elvar Steinn Traustason.