Emil Barja hefur ákveðið að snúa til baka í Hafnarfjörðinn og mun spila með Haukum í Domino’s deild karla á næsta tímabili. Kkd. Hauka og Emil gerðu með sér tveggja ára samning.
Emil er Haukum vel kunnugur enda spilað allan sinn feril með Haukum þangað til hann ákvað að taka slaginn með KR á síðasta tímabili. KR-ingar enduðu tímabilið með Íslandsmeistaratitli og því dýrmæt reynsla sem Emil tekur með sér úr Vesturbænum.
Þá mun Emil einnig sinna yfirþjálfarastöðu yngri flokka deildarinnar og stýra faglegu starfi við þjálfun yngri flokkanna. Emil er menntaður íþróttafræðingur og búinn að sinna þjálfun yngri flokka um nokkurt skeið.
Það þarf ekkert að fara neitt leynt með það hversu glatt Haukafólk eru að fá Emil til baka og er hann stór partur í samsetningu á liði Hauka fyrir næsta tímabil.
„Ég er mjög ánægður að vera kominn aftur í Hauka,“ sagði Emil Barja þegar undirskriftin var klár. „Ég vil þakka KR fyrir allt og flott tímabil að baki þar. Það eru spennandi tímar framundan í Hafnarfirði sem gaman verður að vera hluti af. Nýr þjálfari og fyrsta tímabilið í Ólafssal,“ bætti hann við að lokum.
Isarel Martin þjálfari mfl. karla hafði þetta að segja um nýjasta leikmanninn sinn. „Endurkoma Emils eru frábærar fréttir fyrir Hauka. Hann er mikill keppnismaður og mun hans reynsla og leiðtogahæfileikar nýtast okkur innan vallar sem utan.“