Lokahóf körfuknattleiksdeildar Hauka:
Lokahóf Körfuknattleiksdeildar Hauka fór fram laugardaginn 12. maí í Ólafssal að Ásvöllum í kjölfar velheppnaðs tímabils, en bæði meistarflokkur kvenna og karla urðu deildarmeistarar á tímabilinu ásamt því að Haukar urðu Íslandsmeistarar kvenna. Framtíðin er björt hjá Haukum því þeir urðu einnig Íslandsmeistarar í drengjaflokki og komust í úrslit í stúlknaflokki og enduðu með silfur í þeim flokki.
Helena Sverrisdóttir og Emil Barja voru valin mikilvægustu leikmenn meistaraflokkanna en Kári Jónsson og Þóra Kristín Jónsdóttir best. Þá náði Emil Barja 300 leikja markinu með meistaraflokki og hefur spilað flesta leiki af spilandi leikmönnum. Hann er annar leikjahæsti leikmaður Hauka frá upphafi, samkvæmt þeim upplýsingum sem finna má, en aðeins Jón Arnar Ingvarsson hefur spilað fleiri leiki en hann eða tæplega 400 leiki.
Verðlaunahafar á hófinu:
Mikilvægustu leikmennirnir: Helena Sverrisdóttir og Emil Barja
Bestu leikmennirnir: Þóra Kristín Jónsdóttir og Kári Jónsson
Bestu varnarmenn: Dýrfinna Arnarsdóttir og Hjálmar Stefánsson
Efnilegustu leikmennirnir: Sigrún Ólafsdóttir og Hilmar Pétursson
Mestar framfarir: Sigrún Ólafsdóttir og Breki Gylfason
Fimm leikmenn spiluðu sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk á síðasta tímabili og er það markmið Hauka að ala upp og halda í leikmenn sína til að byggja upp góða samhenta heild í liðunum.
Sign skartgripaverslun kom færandi hendi
Íslandsmeistarar meistaraflokks kvenna áttu sviðið á lokahófi Hauka ásamt skartgripafyrirtækinu Sign í Hafnarfirði. Sign hannaði og gaf Íslandsmeisturunum sérhannað hálsmen sem skartar rauðum steini ásamt plötu með merki Hauka og ártalinu 2018. Hálsmenið er stílhreint, fallegt og lífstíðareign liðsfélaga. Það er sameiningartákn liðsins fyrir þann árangur og elju sem þær og þjálfarar hafa stundað á tímabilinu. Sign hefur á að skipa skapandi hönnuði sem hikar ekki við að fara út fyrir rammann og öll Haukafjölskyldan er óumræðilega þakklát Inga í Sign fyrir að taka þetta verkefni með þvílíkri fagmennsku, alúð og fegurð. Það var Kristín Ólöf Grétarsdóttir starfsmaður Sign sem afhenti stúlkunum gjöfina fyrir hönd Sign.
Sign á hlut í öllu Haukafólki í kjölfarið.