Emily Armstrong hefur undirritað nýjan samning við knattspyrnufélag Hauka og mun spila með liðinu í Lengjudeildinni á næsta tímabili.
Emily er 28 ára markmaður og lék með Haukum á síðasta tímabili þar sem hún stóð sig mjög vel en hún er frá Bandaríkjunum. Þá lék hún með ÍBV í Pepsídeildinni 2018 þannig að hún er orðin mikill Íslandsvinur. Hún hefur einnig leikið í Svíþjóð í næst efstu deild þar, WPSL deildinni í USA og efstu deild í Noregi.
Guðrún Jóna Kristjánsdóttir segir þetta vera frábær tíðindi. ,,Emily er mjög góður markvörður og því lögðum við ríka áherslu á að semja aftur við hana og þá er hún frábær manneskja sem fellur vel inn í hópinn.“
Að sögn Jónu á að styrkja hópinn enn frekar. ,,Við erum að leita að leikmönnum í ákveðnar stöður og karakterum sem passa vel með okkar ungu og efnilegum leikmönnum enda er það okkar markmið að búa til öflugt og skemmtilegt lið.“
Stjórn knattspyrnudeildar Hauka fagna nýjum samningi við Emily.