Erfitt kvöld á Ásvöllum

Andri Freysson var að spila sinn fyrsta leik fyrir mfl. karla í kvöldHaukar tóku á móti KR í kvöld í Iceland Express-deild karla í leik þar sem Haukar voru í takt í aðeins einum leikhluta af fjórum. Í fyrri viðureign þessara liða í deildinni höfðu KR-ingar nauman sigur og mætti jafnvel segja að Vesturbæingar hafi stolið stigunum í þeim leik.

En þannig var það nú ekki í kvöld og Haukastrákar sem hafa sýnt flotta takta í vetur voru einfaldlega ekki nógu góðir. Lið KR var sterkari á öllum vígstöðvum leiksins og miðað við frammistöðu þeirra röndóttu þá geta þeir gert tilkall til þess að vera titlaðir meistaraefni.

Haukaliðið byrjaði leikinn ágætlega í kvöld og skoraði fyrstu stigin en KR-ingar sýndu styrk sinn og komust fljótlega yfir og leiddu 12-22 þegar skammt var til loka fyrsta leikhluta. Haukar skoruðu sjö síðustu stig leikhlutans og áhorfendur á Ásvöllum héldu að Haukar ætluðu að láta KR-inga hafa fyrir hlutunum.

Annar leikhluti var hörmung hjá Haukum sem áttu í hinum mestu vandræðum með að koma boltanum ofaní körfuna. Heimamenn skoruðu aðeins 8 stig í leikhlutanum gegn 37 frá KR. Það gekk bara ekkert hjá okkur. Það skipti engu máli þó Haukar skiptu í svæðisvörn. KR-ingar skoruðu og skoruðu. Þegar upp var staðið unnu KR-ingar stóran sigur 74-108.

Munurinn á liðunum er ekki svona mikill en Haukar voru aðeins of gestrisnir í kvöld og leyfðu gestunum að framkvæma sínar aðgerðir á of einfaldan hátt.

Stigahæstur hjá Haukum var Semaj Inge með 22 stig og Örn Sigurðarson var með 13 stig.

Andri Freysson, 18 ára gamall, leikmaður Hauka fékk að spreyta sig í sínum fyrsta leik fyrir Hauka í kvöld og tók hann þrjú fráköst á þeim mínútum sem hann lék. Einnig var Guðmundur Darri Sigurðarson, 17 ára, í liðinu í fyrsta skipti. Heimasíðan óskar þeim til hamingju.

Næsti leikur Hauka er gegn Grindavík þann 27. janúar í Grindavík.

Áfram Haukar!!!!

Umfjöllun um leikinn á Karfan.is

Myndasafn úr leiknum á Karfan.is