Eygló Þorsteinsdóttir hefur skrifað undir samning við knattspyrnudeild Hauka sem gildir út árið 2021 en hún er uppalin hjá Val. Þá hefur Birna Kristín Eiríksdóttir skrifað undir lánssamning við félagið en hún kemur frá Fylki.
Jakob Leó Bjarnason, þjálfari meistaraflokks kvenna, segir að koma þeirra Birnu og Eyglóar stækki hópinn og geri hann sterkari. ,,Við erum að fylla í þær stöður á vellinum sem við teljum þurfa meiri samkeppni í og þær munu koma með mikil gæði inn í hópinn.”
Eygló er varnarsinnaður miðjumaður með góðan leikskilning og að sögn Jakobs er hún þeim kostum gædd að vera hörð af sér og geta stýrt umferðinni vel á miðsvæðinu.
Birna Kristín er sóknarsinnaður miðjumaður sem býr yfir mikilli tækni og fer vel með boltann segir Jakob. ,,Hún er einstaklega lunkin í því að koma sjálfri sér í góðar stöður og hefur mikla hæfileika til að spila samherja sína í góð færi.”
Eygló á að baki sex leiki með U17 ára landsliðinu og þrjá leiki með U19 en hún var á láni hjá HK/Víking í Pepsí Max deildinni á síðustu leiktíð en hún á að baki alls 16 leiki í efstu deild og níu leiki í Lengjudeildinni.
Birna á að baki átta leiki í Pepsí Max deildinni og níu leiki í Lengjudeildinni.
Við bjóðum þær Birnu og Eygló velkomnar í Hauka!