Íþróttamiðstöð Hauka á Ásvöllum
Langþráður draumur Haukafélaga um framtíðaraðstöðu fyrir allt íþróttastarf félagsins rættist með formlegum hætti 12. apríl árið 2001 þegar félagið flutti alla starfsemi sína á Ásvelli. Áður hafði knattspyrnudeild félagsins verið með aðstöðu á svæðinu.
Aðdraganda byggingarinnar er lýst þannig:
Á 65 ára afmælishátíð Knattspyrnufélagsins Hauka, þann 12. apríl árið 1996 var undirritaður samningur milli félagsins og bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um fjárframlag til hönnunar á nýju íþróttahúsi á Ásvöllum. Þá var jafnfram undirritaður samningur við Arkitekta Skógarhlíð sf. um hönnun og teiknivinnu fyrir hið nýja íþróttamannvirki.
Í maí 1998 var gengið formlega frá framkvæmdasamningi milli Hauka og bæjaryfirvalda í Hafnarfirði um byggingu íþróttahússins. Samkvæmt samningum verður íþróttahúsið tilbúið til kennslu og annarrar íþróttastarfsemi eftir aðeins 20 mánuði, eða haustið 2000. Fullbúið með félagsaðstöðu verður húsið tekið í notkun þann 21. apríl árið 2001, þegar Knattspyrnufélagið Haukar fagnar 70 ára afmæli sínu. Áætlaður byggingarkostnaður er um 500 milljónir, þar af greiðir Hafnarfjarðarbær 80% og Knattspyrnufélagið Haukar 20%. Samhliða framkvæmdasamningnum var gerður samningur á sölu á eldra íþróttahúsi Hauka við Flatahraun til bæjarsjóðs og rennur hlutur Hauka upp í þessar nýframkvæmdir. Í sérstökum rekstrarsamningi vegna nýja hússins á Ásvöllum er gengið út frá því að Haukar muni alfarið sjá um allan rekstur íþróttahússins.
Undirbúningur byggingu íþróttamiðstöðvar hefur staðið um nokkurt skeið en nú liggja fyrir aðalteikningar og önnur hönnunarvinna er í lokavinnslu. Búið er að bjóða út fyrsta verkáfanga sem er jarðvinna. Fyrsta skóflustungan var tekin við hátíðlega athöfn á þrettándagleði félagsins á Ásvöllum þann 6. janúar 1999.
Byggingarlýsing mannvirkisins:
Íþróttamiðstöð Hauka verður byggð norðvestan við gervigrasvöll, á svæði milli vallarins og Ásbrautar. Aðkoma að svæðinu verður frá hringtorgi á Ásbraut. Íþróttamiðstöðin skiptist í þrjá megin hluta: Íþróttasal ásamt forsal, stoðrými íþróttasalar (búningsklefar og rými tengd rekstri hússins) og félagsmiðstöð Hauka.
Forsalur er hugsaður sem „bæjargata“ en frá henni liggja beinar leiðir til allra hluta hússins. Götunni tengist inngarður sem myndast af umlykjandi félagsmiðstöð, veitingasal, karatesal og búningsklefum. Forsalnum tengist einnig aðstaða starfsmanna og daglega afgreiðsla/vakt og sala léttra veitinga ásamt miðasölu þegar leikir fara fram.
Íþróttasalur er 45×46 metrar og rúmar þær íþróttagreinar sem helst eru stundaðar innanhúss hérlendis. Gert er ráð fyrir um 2000 áhorfendum í útdregnum áhorfendabekkjum en þegar þeir eru í „geymslustöðu“ nýtist gólfpláss undir áhorfendastæðum til íþróttaiðkunar og má þá skipta sal niður með tjöldum í 3-4 hluta, allt eftir notkun.
Búningsherbergi verða tólf, tíu eru við hlið íþróttasalar en tvö við karatesal í suðurenda hússins og eru þau einnig hugsuð fyrir notendur gervigrasvallar.
Í félagsmiðstöð Hauka eru skrifstofur félagsins ásamt starfsaðstöðu og geymslum fyrir hverja deild. Þar er einnig fundarherbergi og veislusalur fyrir um 120 manns ásamt framreiðslueldhúsi. Við hlið veitingasalar er karatesalur og með fellanlegum vegg milli þeirra verður mögulegt að slá þeim saman í um 250 manna veitingasal.
Við uppbyggingu hússins hefur verið tekið mið af því að unnt verði í framtíðinni að byggja annan minni sal til æfinga og/eða keppni norð-austan við húsið og myndi hann því tengjast auðveldlega bæði búningsklefum og forsal. Heildarflatarmál hússins verður 5372,5 fermetrar og félagsmiðstöð Hauka þar af 627 fermetrar.