Eftir flotta frammistöðu þrátt fyrir tap gegn Saint Raphael Handball í EHF bikarnum um helgina er komið að næsta verkefni meistaraflokks karla í handbolta þegar nýliðar Gróttu mæta í Schenkerhöllina í kvöld, fimmtudag kl. 19.30.
Fyrst aðeins um leikinn á sunnudaginn en Haukamenn mættu grimmir til leiks og ætluðu að láta franska stórliðið hafa fyrir hlutunum og komust þeir snemma í 4 – 1 en þá komust Frakkarnir meira inn í leikinn og sýndu úr hverju þeir eru gerðir komust í 11 – 5 og voru þeir svo yfir í hálfleik 15 – 10.
Gunnar þjálfari las greinilega vel yfir sínum mönnum í hálfleik því það var allt annað að sjá Haukaliðið í seinni hálfleik sér í lagi sóknarlega en Haukamenn minnkuðu muninn hægt og rólega og náði Heimir Óli að jafna leikinn 28 – 28 þegar skammt var til leiksloka en gestirnir náðu að skora síðasta mark leiksins og unnu þeir því leikinn 29 – 28. Haukamenn geta þó vel við unað því þeir sýndu það að þeir létu liðið sem er í öðru sæti frönsku deildarinnar hafa vel fyrir sigrinum. Markahæstur Haukamanna í leiknum var Janus Daði með 7 mörk en næstir á eftir honum komu Adam Haukur, Heimir Óli og Elías Már allir með 5 mörk hvor einnig átti Giedrius flottan leik í markinu og varði hann 17 bolta.
Haukamenn fá þó ekki langan tíma til þess að sleikja sárin eftir tapið því strax í kvöld, fimmtudag, er komið að næsta verkefni strákanna þegar Gróttumenn koma í heimsókn í Schenkerhöllina. Grótta er nýliði í deildinni en þeir hafa þó sýnt það að þeir eiga heima í þessari deild eftir erfiða byrjun þá hafa þeir verið á skriði síðustu leiki og fyrir leikinn eru þeir í 6. sæti með 12 stig úr 14 leikjum en Haukamenn eru á toppi deildarinnar með 22 stig úr 13 leikjum. Liðin hafa mæst einu sinni á þessu tímabili en þá mættust liðin á heimavelli Gróttu og lauk þeim leik með sigri Hauka 24 – 22 og má því búast við hörkuleik þegar liðin mætast í Schenkerhöllinni kl. 19:30 í kvöld, fimmtudag. Það er því um að gera fyrir fólk að mæta og hvetja strákanna til sigur því þeir eiga það svo sannarlega skilið eftir flotta frammistöðu í EHF bikarnum og svo að strákarnir fari með gott veganesti í seinni leikinn gegn Saint Raphael næsta sunnudag. Áfram Haukar!