Frábær sigur á Akureyri

Aron og Birkir ráða ráðum sínum í gær (Mynd: Snorri Sturluson)Haukar unnu Akureyri í gærkvöld í N1-deildinni í handbolta karla með 26 mörkum gegn 18. Sigurinn kom kannski ekki á óvart en hversu þægilegur hann var kom hins vegar mjög á óvart því Akureyringar hafa á að skipa öflugu liði sem hefur verið á miklu skriði undanfarið. Frábær vörn og ótrúleg markvarsla Arons Rafns Eðvarðssonar í Haukamarkinu lögðu grunnin af þessum frábæra sigri en Aron varði 23 skot í markinu og mörg hver þeirra úr dauðafærum Akureyringa.

Eftir leiki gærdagsins eru okkar menn áfram á toppnum ásamt nágrönnunum úr FH með 25 stig. HK er komið í þriðja sæti með 23 stig og Akureyri er í því fjórða með 22 stig. Í næstu umferð mæta strákarnir okkar HK í Digranesi og er óhætt að segja að sá leikur sé gríðarlega mikilvægur rétt eins og leikurinn í gærkvöld var. Við Haukar þurfum  hins vegar ekki að óttast neitt ef liðið spilar áfram eins og í gær þar sem hvergi var veikann hlekk að finna og liðið hreinlega geislaði af sjálfstrausti. 

Markahæstu menn Hauka í leiknum voru: Sveinn Þorgeirsson með 6 mörk, Stefán Rafn Sigurmannsson með 6 (3 úr vítum) og þeir Freyr Brynjarsson og Tjörvi Þorgeirsson gerðu 4 mörk hvor.