Ólafur Jóhannesson ráðinn þjálfari meistaraflokks karla og Jón Stefán Jónsson þjálfari meistarflokks kvenna hjá Haukum
Í dag skrifa Ólafur Jóhannesson og Haukar undir 3ja ára samning þar sem Ólafur tekur við þjálfun meistaraflokks karla. Ólafur er vel þekktur enda þjálfað víða, nú síðast karlalandslið Íslands.
Með Ólafi kemur mikill reynslubolti til liðsins en Sigurbjörn Örn Hreiðarsson mun verða spilandi aðstoðarþjálfari. Sigurbjörn er knattspyrnuheiminum vel kunnur enda leikið með Val í áravís við góðan orðstír.
„Haukar hafa lagt gríðarlegan metnað í uppbyggingu yngri flokka félagsins sem er nú að skila sér í yngri landsliðum Íslands og frábærum árangri yngir flokka félagsins. Þeir hafa á að skipa einu besta þjálfarateymi sem ég þekki í yngri flokkum og framtíðin er björt. Það er því spennandi að taka við þessu verkefni. Fyrir er sterkir reynslumiklir leikmenn sem margir hafa fengið nasaþefin af úrvalsdeildinni og hungrar að komast þangað aftur. Forveri minn, Magnús Gylfason, hleypti mörgum ungum leikmönnum inní liðið í sumar og þá sást að mikill og sterkur efniviður er til staðar. Þessir strákar verða því vel undirbúnir þegar nýtt keppnistímabil hefst. Við tökum stefnuna á Pepsídeildina og við Sigurbjörn munum vinna markvisst að því og síðan að tryggja Haukum framtíðarbúsetu á meðal þeirra bestu“ segir Ólafur.
Samtímis mun Jón Stefán Jónsson skrifa undir 2ja ára samning þar sem hann tekur við þjálfun meistaraflokks kvenna. Jón Stefán hefur unnið frábært starf hjá yngri flokkum Þórs á undanförnum árum og var nú síðast yfirþjálfari yngri flokkanna.
„Mikið og metnaðarfullt starf er í gangi í yngri flokkum Hauka og hefur orðið gríðarleg fjölgun af stúlkum að æfa hjá félaginu. Markmiðið er að byggja upp á næstu misserum og að sjálfsögðu er markmiðið að verða meðal hinna bestu. Ég er mjög bjartsýnn og tel framtíð Hauka í kvennaboltanum bjarta“ segir Jón Stefán.
Haukar vilja þakka Magnúsi Gylfasyni og Heimi Porca fyrir frábær störf. Það er metnaðarfullt starf í knattspyrnunni á Ásvöllum og uppbygging undanfarinna ára miðar að því að félagið tryggi sér framtíðarveru í úrvalsdeildum. Þetta er þolinmótt verkefni og með ráðningu Ólafs, Sigurbjörns og Jón Stefáns eru Haukamenn sannfærðir um að félagið hafa færst einu skrefi nær þessu markmiði.
Jón Björn Skúlason, formaður knattspyrnudeildar Hauka