Knattspyrnusumarið 2009 er án nokkurs vafa besta knattspyrnusumar Hauka frá upphafi. Frábær árangur í yngri flokkum félagsins var kórónaður af bæði meistaraflokki karla og kvenna með sæti í Pepsí deildinni að ári.
Félagið hefur unnið hörðum höndum að uppbygginu á Ásvöllum á undanförnum árum og er öll aðstaða þar til íþróttaiðkunnar til fyrirmyndar. Þó hefur enn ekki tekist að byggja upp áhorfendaaðstöðu við knattspyrnuvelli félagsins. Í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ er nú stefnt að því að byggja stúku fyrir 500 áhorfendur við gervigrasvöll félagsins fyrir keppnistímabilið sumarið 2010. Frekari uppbygging er fyrirhuguð á svæðinu í náinni framtíð en fyrirséð er að stærstu leiki Hauka næsta sumar þarf að flytja á völl með fleiri sæti. Það hefur því verið gert samkomulag við systurfélag Hauka, Val, um afnot af Vodafonevellinum fyrir hluta heimaleikja Hauka í Pepsídeildinni árið 2010. Haukar eru Valsmönnum afar þakklátir enda mun umgjörð stórleikja félagsins verða glæsileg að Hlíðarenda.
Ágúst Sindri Karlsson, formaður Hauka