Fréttatilkynning frá knattspyrnudeild Hauka

Haukar

Knattspyrnudeild Hauka sendi nú rétt í þessu fréttatilkynningu frá sér vegna tíðinda síðustu klukkutíma, m.a. vegna félagskipta Guðmunds Viðars Mete í Hauka, nýs samnings Andra Marteinssonar við Hauka og „nýja heimavöll“ Hauka á næsta ári. 

Fréttatilkynninguna má lesa í heild sinni hér að neðan.

Knattspyrnusumarið 2009 er án nokkurs vafa besta knattspyrnusumar Hauka frá upphafi. Frábær árangur í yngri flokkum félagsins var kórónaður af bæði meistaraflokki karla og kvenna með sæti í Pepsí deildinni að ári.

Félagið hefur unnið hörðum höndum að uppbygginu á Ásvöllum á undanförnum árum og er öll aðstaða þar til íþróttaiðkunnar til fyrirmyndar. Þó hefur enn ekki tekist að byggja upp áhorfendaaðstöðu við knattspyrnuvelli félagsins. Í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ er nú stefnt að því að byggja stúku fyrir 500 áhorfendur við gervigrasvöll félagsins fyrir keppnistímabilið sumarið 2010. Frekari uppbygging er fyrirhuguð á svæðinu í náinni framtíð en fyrirséð er að stærstu leiki Hauka næsta sumar þarf að flytja á völl með fleiri sæti. Það hefur því verið gert samkomulag við systurfélag Hauka, Val, um afnot af Vodafonevellinum fyrir hluta heimaleikja Hauka í Pepsídeildinni árið 2010. Haukar eru Valsmönnum afar þakklátir enda mun umgjörð stórleikja félagsins verða glæsileg að Hlíðarenda.

Á árinu 2009 var uppistaða meistaraflokksleikmanna Hauka uppaldir heimamenn. Nú hefur náðst samkomulag um að framlengja samninga lang flestra þeirra leikmanna. Haukar sjá fyrir sér bjarta framtíð þar sem mikið af efnilegum leikmönnum eru að koma upp í gegnum frábært yngriflokka starf. Það er þó mikilvægt að styrkja hópinn með reynslumeiri mönnum og nú þegar hefur verið undirritaður 2ja ára samningar við Guðmund Viðar Mete (frá Val) og viðræður standa yfir við nokkra aðra leikmenn. Jafnframt hefur félagið gert tveggja ára samning við Andra Marteinsson um áframhaldandi þjálfun liðsins enda hefur árangur þess verið frábær undir hans stjórn.                                                                       

Jón Björn Skúlason, formaður knattspyrnudeildar


                                                                       Ágúst Sindri Karlsson, formaður Hauka