Haukar bættu enn sigrinum í safnið í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi þegar Ármenningar komu í heimsókn. Fyrir leikinn mátti búast við auðveldum sigri Hauka enda liðin á sitt hvorum enda í stigatöflunni.
En þeir sem þekkja vel til í körfubolta vita betur þar sem lið Ármanns er skipað mörgum frábærum körfuknattleiksmönnum.
Leikurinn reyndist hin mesta skemmtun og unnu Haukar að lokum eftir framlengdan leik 77-74 og er þeir enn í efsta sæti 1. deildar ásamt Hamri með 12 stig.
Hvorugt liðið náði undirtökunum í leiknum og því munaði sjaldan mörgum stigum. Haukaliðið var þó oftar með frumkvæðið og leiddi eftir 1. leikhluta 23-18, í hálfleik 39-30 og eftir 3. leikhluta 59-56. Ármenningar náðu þó á köflum að komast yfir.
Fjórði leikhluti var afar spennandi. Ármenningar leiddu 67-70 þegar um mínúta var eftir en Sveinn Ómar Sveinsson jafnaði leikinn með þriggja-stiga körfu þegar um 20 sekúndur voru eftir. Níels Dungal, leikmaður Ármanns, fékk upplagt tækifæri til að skora þegar flautan gall en hann geigaði á stuttu skoti og því þurfti að framlengja.
Í framlengingunni voru Ármenningar sterkari til að byrja með og skoruðu Haukar ekki fyrstu 3 mínúturnar. Gunnlaugur Elsuson kom Ármenningum yfir 70-73 með þriggja-stiga körfu eftir eina mínútu.
Kristinn Jónasson fékk tæknivillu þegar um ein og hálf mínúta var eftir og fengu Ármenningar tvö vítaskot og boltann. Nýttu þeir annað þeirra og náðu ekki að skora og leiddu því með fjórum stigum 70-74 þegar um mínúta var eftir. Haukar minnkuðu muninn í næstu sókn þegar Óskar Magnússon setti þriggja-stiga skot og Ármenningar klúðruðu svo í næstu sókn. Sveinn Ómar Sveinsson kom Hauku yfir með tveggja-stiga körfu og Haukar leiddu þegar um 35 sekúndur voru eftir 74-75.
Ármenningar náðu ekki að skora í næstu sókn og náðu Haukar boltanum. Fóru þá Ármenningar að brjóta til þess að koma Haukum á línuna. Óskar Ingi Magnússon fór á línuna og setti niður tvö vítaskot og jók muninn í þrjú stig 77-74. Ármann reyndi örþrifa þriggja-stiga skot í endann en geigaði og Haukar fögnuðu innilega í leikslok eftir að hafa innbyrt þennan spennusigur.
Hjá Haukum var Sveinn Ómar Sveinsson stigahæstur og besti maður Hauka með 22 stig og 15 fráköst. Kristinn Jónasson var með 16 stig og 9 fráköst.
Hjá Ármanni var Sæmundur Oddsson stigahæstur með 21 stig.
Eftir sigurinn eru Haukar efstir í deildinni með 12 stig eins og Hamar.
Umfjöllun og myndir úr leiknum er á Karfan.is
Mynd: Óskar Ingi Magnússon var svellkaldur í lokin og kláraði leikinn með 5 af 7 stigum Hauka í framlengingunni – stefan@haukar.is