Hilmar Geir Eiðsson er kominn heim úr Keflavíkinni, en það var tilkynnt á fréttamannafundi sem haldin var fyrir rúmlega viku síðan á Ásvöllum. Hilmar Geir hefur undanfarin tvö sumur spilað með Keflavík í Pepsi-deildinni en þar áður spilaði hann allan sinn feril með Haukum.
Hilmar Geir er 27 ára og á að baki 178 meistaraflokksleiki, þar af 136 með Haukum. Mörkin eru 36 talsins sem hann hefur skorað, en sumarið 2011 skoraði hann til að mynda fimm mörk með Keflavík í Pepsi-deildinni.
Undirritaður fékk Hilmar Geir til að svara nokkrum spurningum, varðandi heimkomuna og stöðuna á Haukaliðinu eins og staðan er í dag, fyrst spurðum við hann einfaldlega hver ástæðan væri að hann ákvað að koma heim á þessum tímapunkti.
,,Það eru einfaldlega mjög spennandi hlutir að gerast í Haukunum. Mikil uppbygging átt sér stað síðustu ár innan klúbbsins og framtíðin er björt. Menn eru hægt og rólega að hætta finnast það í lagi að liðið sé í neðri deildum. Fyrir mig persónulega er þetta ný áskorun, þótt það sé auðvitað mun skemmtilegra að spila í úrvalsdeildinni, þá er gríðalega erfitt að komast upp úr 1. deild. En þetta er þó einungis fyrsta skrefið af mörgum í að koma Haukum á hærri stall,“ sagði Hilmar Geir sem viðurkennir að hugurinn var kominn heim, á Ásvelli fyrir nokkru síðan en valið stóð á milli þess að halda áfram í Keflavík eða koma heim,
,,Keflavík vildu að sjálfsögðu halda mér, en annars var ég ekki með neitt fast í hendi frá öðrum klúbbum. Það hefði þó ekki breytt miklu, hugurinn var alltaf kominn heim.„
Hilmar Geir var duglegur að mæta á leiki Hauka í sumar, bæði heimaleiki jafnt sem útileiki og hafði hann nokkrar skoðanir á spilamennsku liðsins, skoðanir sem jú, líklega allir eða að minnsta kosti flestir höfðu á spilamennskunni í sumar,
,,Varnarleikurinn var líklega eini ljósi punktur liðsins, ég vonaðist eftir að liðið myndi fá minna en 20 mörk á sig. Það gerðist ekki, en heilt yfir þá var varnarleikur liðsins öflugur. Ég held samt að flestir sem horfðu á Haukaleik hafi séð að boltinn væri enginn sérstakur vinur þeirra. Þannig í stuttu máli má segja að sóknarleikur liðsins hafi verið slakur og sjaldnast virtist vera hugsun á bak við það sem menn gerðu með boltann. En það mun vonandi breytast á næsta tímabili.“
Hilmari Geir lýst vel á hópinn en hann neitar því ekki að það væri jákvætt að fá að minnsta kosti einn leikmann í viðbót sem myndi styrkja liðið. Hann bendir einnig á að það eru ekki bara leikmenn liðsins sem gera Hauka að stærra og betra liði, heldur aðstandendur liðsins, þjálfarar, stjórn og stuðningsmenn,
,,Hópurinn er góður og það er komið meira jafnvægi milli sóknar og varnar. En auðvitað væri ekkert verra að landa einni sleggju í viðbót. Framtíðin er björt, en leikmenn og aðstandendur liðsins verða að undirbúa sig fyrir mikla vinnu til þess að koma Haukum á þann stað sem það á að vera,“ sagði Hilmar Geir að lokum.
Við þökkum Hilmari Geir fyrir svörin, bjóðum hann að sjálfsögðu velkomin heim og óskum honum velfarnaðar í Haukabúningnum að nýju.