Fyrsta tap tímabilsins staðreynd

Það voru fá tilefni til að klappa í kvöldHaukar töpuðu sínum fyrsta leik í N1 deild karla í kvöld þegar liðið steinlá gegn HK í Digranesi 26-19. Strákarnir voru ólíkir sjálfum sér, spiluðu ekki sem lið og mættu hreinlega ekki til leiks. Það gengur engan veginn gegn HK en þetta er fjarri því að vera fyrsta tap Hauka í Digranesi undanfarin ár. Deildin er komin í jólafrí og er mikið jafnræði meðal efstu liða. Haukar eru í efsta sæti með 14 stig en síðan koma fjögur lið með 11 stig: FH, Akureyri, Valur og HK. Kópavogsliðið kemst ekki í deildarbikarinn þrátt fyrir sigurinn í kvöld.

Það er óþarfi að fjölyrða um þennan leik. Hann var einfaldlega hörmung frá a til ö. Framundan er deildarbikarinn á milli jóla og nýárs þar sem Haukar og Valur mætast í bæði karla og kvenna þar sem liðin eru í fyrsta og fjórða sæti hvorrar deildar. Leikirnir fara fram sunnudaginn 27. desember. Nánari fréttir af því síðar.