Fyrsti úrslitaleikurinn á morgun

Á morgun verður fyrsti leikurinn í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitil karla. Þau lið sem berjast um titilinn eru núverandi Íslandsmeistarar Haukar og Valur. 

Þar sem Haukar sigruðu N1-deild karla eru þeir með heimavallaréttin og er því fyrsti leikurinn á morgun á Ásvöllum. Hefst leikurinn klukkan 19:45, korter í átta.

Það er alveg á hreinu að þetta eru tvö bestu lið landsins, Haukar ríkjandi deildarmeistarar og Valsarar bikarmeistarar. Í deildinni mættust liðin þrisvar sinnum, tvisvar sinnum á Ásvöllum og einu sinni að Hlíðarenda í Vodafone-höllinni. Haukar hafa sigrað báða leikina á Ásvöllum, sá fyrri 25-23 og sá seinni 25-22.    En í Vodafone-höllinni steinlágu Haukarnir aftur á móti gegn Val 35-23. 

 

Það verður vel tekið á því á morgun, bæði á vellinum sem og á pöllunum en vel hefur verið mætt á leikina í úrslitakeppninni, bæði á leikina hjá Haukum og Fram og hjá Val og HK en Valsarar fóru með sigur af hólmi í því einvígi 2-1. Við hvetjum því allt Haukafólk að fjölmenna á völlinn á morgun og mætum í Haukalitunum og höfum gaman á vellinum.

Við hvetjum fólk einnig eindregið að mæta tímanlega á völlinn á morgun.

Haukar – Valur á Ásvöllum á morgun, mánudag klukkan 19:45