Fyrsti leikur í úrslitunum á morgun, laugardag kl. 17:00. Haukar – Snæfell.

haukar kvennaFyrsti leikur í úrslitum Dominos deildar kvenna fer fram í Schenkerhöllinni laugardaginn 16. apríl kl. 17:00, en þá koma Hólmarar í heimsókn.

Haukar og Snæfell hafa háð harða baráttu síðustu ár og eru ekki nema tvö ár síðan þessi lið spiluðu til úrslita um titilinn en þá lögðu Snæfellingar Hauka 3-0, en stelpurnar eru staðráðnar í því að hefna fyrir það og koma sterkar til leiks.

Haukarnir sýndu gríðarlegan styrk á móti Grindavík eftir að hafa lent 2-0 undir og unnu sögulegan 3-2 sigur og unnu tvo heimaleiki með ótrúlegum yfirburðum. Varnarleikur liðsins hefur farið batnandi og var stórkostlegur í síðustu þrem leikjum. Ljóst er að liðið þarf að spila af sömu hörk og gleði og verið hefur. Stelpurnar hafa fagnað hverri körfu og hverjum stolnum bolta eins og úrslitakörfu og þannig eru góð lið. Einstaklega gaman hefur verið að horfa á samstöðuna og baráttuna í liðinu og gleðið smitar til allra.

Gríðarlegur stuðningur hefur verið úr stúkunni og nú þarf Haukafólk að mæta og styðja og hvetja. Leikurinn byrjar kl. 17:00 og hvetjum við fólk til að mæta snemma og komast vel inn í úrslitastemninguna.

Áfram Haukar

ps. smá fróðleikur um orðið stemning eða stemming (fengið af Vísindavefnum „visindavefurinn.is“)

Það fer líklega eftir stemningunni hverju sinni hvernig fólk vill bera orðið stemning fram.
Í Íslenskri orðabók frá Eddu er tvenns konar ritháttur á orðinu tilgreindur. Annars vegar stemning með einu m-i og n-i og hins vegarstemming með tveimur m-um og án n.Stemning merkir skap, geðblær eða einhvers konar hugrænt andrúmsloft. Til dæmis segja menn að ‘hún hafi verið í stemningu’ í merkingunni vel upplögð og að ‘í salnum var góð stemming’ sem þýðir þá að í salnum hafi verið gott andrúmsloft. Stemning er tökuorð úr dönsku stemning
.“