Fyrstu helgi fjölliðamóta lokið

HaukarÍvar Ásgrímsson, yfirþjálfari yngri flokka í körfubolta skrifar:

Nú er fyrsta helgin búin í fjölliðamótum í körfuboltanum.

Stúlknaflokkur spilaði í Njarðvík og erum við þar með nokkuð ungt lið og frekar lítið en Lovísa var meidd og spilaði ekki. Stúlkurnar stóðu sig ágætlega og unnu 1 leik en sýndu að þær geta verið nokkuð góðar er þær veittu Keflavík harða keppni og því verður gaman að fylgjast með þeim í næstu mótum. Líka með breytingu á æfingum hjá þeim þá ætti það að leiða að betri leikæfingu.

11. flokkur drengja spilaði í Garðabæ og stóð sig mjög vel, unnu þrjá og töpuðu einum (á móti Njarðvík). Var í því hlutverki að horfa á þessa stráka núna og sá hve frábær flokkur þetta er. Þeir unnu tvo leiki stórt og t.d. voru að vinna Stjörnuna með um 40 stigum á tímabili. Leikurinn á móti Njarðvík var slys en þeir urðu kærulausir eftir að hafa náð góðri forystu. Oft á tíðum unun að horfa á spilið hjá þessum strákum.

8. flokkur drengja vann alla sína leiki örugglega og vann sinn riðil en þeir voru því miður í C riðli. Þeir sýndu samt að þeir voru mörgum klössum betri en hin liðin í riðlinum og voru 7 af 12 sem voru að spila enn í 7 flokki þannig að þar er efniviður. Nú er bara stefnan að ná upp í A riðil á þessum vetri.

8. flokkur stúlkna stóð sig einstaklega vel og ljóst er að þær eru í mikilli framför. Ingvar að taka við góðum stúlkum af Sigga og er að gera frábæra hluti. Þær unnu B riðilinn, unnu tvo leiki með um 50 stigum og lentu svo í svakalegum leik á móti Njarðvík i úrslitaleik mótsins og unnu með því að skora sigurkörfuna er nokkrar sekúndur voru til leiksloka. Þetta er líka flokkur sem er með margar yngri stúlkur. Mikil framtíð í þessum flokki.

Nokkuð góð helgi hjá okkar krökkum og vonandi verður áframhald á þessu næstu tvær helgar.

Kveðja,

Ívar Ásgrímsson

Yfirþjálfari kkd. Hauka.