Unglingaflokkur karla gerði góða ferð austur á Selfoss í gær í vonsku veðri þegar þeir öttu kappi við heimamenn í FSu. Haukar unnu öruggan sigur 87-98 og styrktu um leið stöðu sína í topp fjórum en aðeins fjögur lið fara í úrslit.
Haukar skoruðu fyrstu körfu leiks en lentu fljótlega undir 6-3. Haukaliði var frekar styrkt í gang enda langt um liðið síðan strákarnir spiluðu saman eða ekki síðan 23. febrúar. Í stöðunni 10-6 FSu í vil hrökk pressa Haukanna í gang og liðið skoraði 16 stig gegn engu heimamanna og breyttu stöðunni í 10-22. Chris Caird leikmaður FSu, sem ekki hafði byrjað inn á, kom inn á og lét mikið fyrir sér fara. Chris skoraði 12 stig á þeim litla tíma sem eftir lifði af fyrsta leikhluta og náði að eins að rétta úr kútnum fyrir FSu. Haukar leiddu með sjö stigum eftir leikhlutann 24-31.
Annar leikhluti var jafn og skemmtilegur og skiptust liðin á að skora. FSu byrjaði þó af miklum krafti og skoruðu fyrstu sex stig leikhlutans og voru búnir að minnka muninn niður í eitt stig. Haukastrákar hertu þá sinn leik og keyrðu muninn aftur í sjö stig. Haukar leiddu í hálfleik með sex stigum 44-50.
Haukar tóku öll völd á vellinum í byrjun þriðja leikhluta og má segja að þeir hafi gert út um leikinn þegar þeir náðu að keyra muninn í 21 stig. Haukur Óskarsson sem hafði látið fara lítið fyrir sér í fyrri hálfleik fór hamförum og skoraði 16 stig í leikhlutanum og átti stóran þátt í að ná upp forskoti Haukaliðsins. FSu náði aðeins að kroppa í muninn fyrir lok leikhlutans og minnkaði muninn í 14 stig og þannig var munurinn á liðunum eftir þriðja leikhluta, 63-77.
Haukar lögðu upp í fjórða leikhluta að halda fengnum hlut og gerðu það. Aftur náði Haukaliðið að keyra upp muninn í 19 stig en slökuðu svo aðeins á undir lok leikhlutans. Haukar pressuðu allan leikinn og fengu á sig klaufalegar villur undir lok leiks sem gerði það að verkum að FSu var mikið á vítalínunni. Heimamenn í FSu náðu að minnka muninn í 11 stig áður en leiknum lauk og gerðu það mestmegnis á vítalínunni. Haukar unnu 87-98 og eru sem stendur í 4. sæti deildarinnar með 12 stig og á tvo leiki á bæði FSu og Fjölni sem eru í 2. og 3. sæti með 14 stig.
Haukur Óskarsson var stigahæstur í liði Hauka með 26 stig en Emil Barja var honum næstur með 25 stig . Emil var án nokkurs vafa besti leikmaður vallarins og stýrði Haukaliðinu með prýði í fjarveru bæði Gunnars Magnússonar og Andra Freyssonar sem eru meiddir.
Chris Caird var langbesti leikmaður FSu í gær með 31 stig en næstur honum var Hilmar Guðjónsson með 24.
Stigaskor Hauka:
Haukur Óskarsson 26
Emil Barja 25
Helgi Einarsson 14
Arnar Hólm Kristjánsson 13
Steinar Aronsson 12
Birkir Pálmason 5
Kristinn R. Kristinsson 3
Mynd: Haukur Óskarsson var drjúgur fyrir Hauka í gær – Arnar Freyr Magnússon