HK 0 – 2 Haukar
0-1 Garðar Ingvar Geirsson (’72)
0-2 Garðar Ingvar Geirsson (’84)
Haukar fögnuðu glæsilegum 2-0 sigri á HK í Kópavoginum í kvöld þar sem að Garðar Ingvar Geirsson skoraði bæði mörkin.
Bæði lið ætluðu sér klárlega sigur fyrir leikinn enda um ‘sex stiga leik’ að ræða þar sem að bæði liðin voru í öðru sæti deildarinnar með 35 stig.
Liðin skiptust á að sækja í fyrri hálfleik og átti Úlfar Hrafn Pálsson fyrsta hættulega færi Haukamanna þegar að hann skallað framhjá markinu eftir frábæran sendingu frá Hilmari Geir Eiðssyni.
Heimamenn áttu svo góða sókn skömmu seinna þegar þeir komust einir á móti marki en Amir Mehica varði vel. Þannig stóðu því leikar í hálfleik og var frábær seinni hálfleikur í vændum.
Haukamenn byrjuðu síðari hálfleikinn betur þar sem að Guðjón Pétur Lýðsson átti skot í stöng úr aukaspyrnu. HK-menn skoruðu svo mark stuttu seinna sem var dæmt af vegna rangstöðu.
Það var svo á 72. mínútu þegar Hilmar Geir Eiðsson vann boltann á vallarhelmingi heimamanna og gaf laglegan bolta á Garðar Ingvar Geirsson sem lagði boltann fallega í netið við mikinn fögnuð stuðningsmanna Hauka.
Hann var svo aftur á ferðinni á 84. mínútu þegar að hann komst einn á móti Gunnleifi í marki heimamanna og setti boltann frábærlega framhjá honum.
Gunnar Jarl Jónsson, dómari leikssins, flautaði svo til leiksloka og því enduðu leikar 2-0 fyrir Hauka. Það eru því aðeins tveir leikir eftir og Haukar í vænlegri stöðu fyrir þá leiki í öðru sæti deildarinnar.