Gengi Hauka í bikar síðustu ár

Haukar mæta á föstudaginn liði Þórs frá Þorlákshöfn í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins.  Leikið verður á Ásvöllum og hefst leikurinn kl. 19:15.

Gengi Hauka í bikarkeppni KKÍ hefur ekki verið upp á marga fiska síðustu ár og hefur liðið lengst náð inn í 8-liða úrslit á síðustu fimm árum og munum við rekja gengi liðsins þessi ár hér á eftir.

Haukar hafa þó náð því að landa bikartittlinum þrívegis á árunum 1985, 1986 og svo 1996.

Tímabilið 2005-06 komst liðið í 16 liða úrslit og tapaði þar gegn liði Þórs Akureyrar með minnsta mun, 89-90, og það á Ásvöllum. Áður höfðu þeir sigrað lið KFÍ í fyrstu umferð, 71-81, á Ísafirði .
Þrír leikmenn Hauka í dag spiluðu með liðinu þá en það eru þeir Sævar Ingi Haraldsson, Óskar Ingi Magnússon og Ingvar Þór Guðjónsson. Predrag Bojovic þjálfaði liðið í þessum tveimur leikjum.

Tímabilið 2006-07 er sennilegast það tímabil sem Haukar vilja gleyma sem allra, allra fyrst. Liðið féll niður í 1. deild og sat þar í þrjú tímabil.
Haukar léku gegn KR í fyrstu umferð bikarsins og töpuðu þar 108-85. Hjörtur Harðarson þjálfaði liðið og þeir Sævar Ingi Haraldsson, Örn Sigurðarson og Sveinn Ómar Sveinsson voru þeir leikmenn sem spiluðu í þeim leik af þeim leikmönnum sem eru í hópi Hauka í dag.
Pétur Ingvarsson þjálfaði þá lið Hamars/Selfoss sem fór alla leið í úrslitaleikinn en Pétur og félagar þurftu lúta í lægra haldið gegn liði ÍR, með tveimur stigum, sem að Jón Arnar, bróðir Péturs, þjálfaði.

Tímabilið 2007-2008 mættu Haukar firnasterku liði Snæfells. Snæfellingar sigruðu lið Hauka örugglega en mikil endurnýjun hafði orðið á liði Hauka þetta tímabil og er kjarni þessa hóps að spila með liðinu í dag. Leikurinn endaði 63-89 og leikið var á Ásvöllum.
Henning Henningsson þjálfaði liðið þetta tímabil

Tímabilið 2008-2009 náðu Haukar besta árangri síðustu fimm ára í bikarnum. Liðið sigraði fyrst úrvalsdeildarlið Breiðabliks í fyrstu umferð,83-75, fóru svo í vesturbæinn og sigruðu KR b, 74-80, en töpuðu svo fyrir liði Njarðvíkur í Ljónagryfjunni í 8 liða úrslitum 77-62.
Pétur Ingvarsson þjálfaði liðið.

Tímabilið 2009-10 staldraði liðið stutt við í bikarkeppninni. ÍR-ingar komu á Ásvelli og til að gera langa sögu stutta sigruðu þeir 70-94 og Haukar snéru sér að deildarkeppninni. Haukar unnu sér svo rétt til að spila í úrvalsdeild og leika þar nú.

Haukar hafa á þessari leiktíð sigrað lið Stál Úlfs og eru því komnir í 16 liða úrslit Poweradebikarsins 2010-2011.

Vonandi sjáum við sem flesta rauðklædda Haukamenn í stúkunni á föstudaginn og í grillinu á undan.

Áfram Haukar.