Það var sannkallaður stórleikur hja strákunum í meistaraflokki í handbolta í gær þegar að Eyjamenn komu í heimsókn. Þessi lið hafa marga hildina háð síðustu ár og því ekki við öðru að búast en að framhald yrði á því.
Það voru gestirnir sem byrjuðu mun betur en eftir um 10 mínútur voru Eyjamenn yfir 6 – 0. Þá tók Gunnar þjálfari leikhlé sem virtist svínvirka því að Haukamenn skoruðu 8 mörk í röð en staðan eftir 20 mínútur var 9 – 7 Haukum í vil og svo þegar 5 mínútur voru eftir voru þeir komnir í 12 – 9. Það voru svo Eyjamenn sem skoruðu síðustu 3 mörk hálfleiksins og staðan því jöfn í hálfleik 12 – 12.
Haukmenn mættu grimmir til seinni hálfleiks og skoruðu þeir fyrstu 3 mörk hálfleiksins en í stöðunni 17 – 15 urðu Haukamenn enn grimmari og skoruðu þeir 7 mörk í röð og staðan þegar að korter lifði leiks 24 – 15. Á þessu kafla varði Björgvin Páll hvert færið á eftir öðru og dróg hann vígtennurnar úr Eyjamönnum en síðustu 15 mínúturnar voru því formsatriði fyrir Haukamenn sem unnu að lokum flottan 29 – 23 sigur.
Eins og í síðasta leik var það vörn og markvarsla sem skóp sigurinn en maður leiksins var Björgvin Páll en hann varði 50% þeirra skota sem á hann komu í leiknum auk þess sem að hann skoraði 1 mark. Markahæstur Hauka í leiknum var Daníel Þór með 8 mörk og næstur kom Hákon Daði með 5 en alls komust 10 leikmenn Hauka á blað í leiknum.
Það er svo annar stórleikur sem að bíður strákanna í næstu umferð þegar að nágrannar okkar í FH mæta í Schenkerhöllina mánudaginn 25. september kl. 20:00 og því um að gera fyrir Haukafólk að taka frá kvöldið strax. Áfram Haukar!