Strákarnir hófu tímabilið í kvöld í Iceland Express-deildinni í körfubolta þegar þeir tóku á móti Snæfelli frá Stykkishólmi. Leikurinn var hin mesta skemmtun en mikil spenna var í leiknum og t.a.m. skiptust liðin 21 sinnu á forustunni. Eftir frábæran leik féll sigurinn ekki með okkar mönnum sem máttu þola ósanngjarnt tap. Lokatölur leiksins voru 89-93 Hólmurum í vil.
Haukur Óskarsson skoraði fyrstu körfu leiksins með laglegu skoti en eftir það hófst sannkallaður darraðadans þar sem liðin skiptust á að skora og hafa forystuna. Þannig var leikurinn út hálfleikinn en þá var staðan jöfn 43-43 en Haukar skoruðu lokakörfu hálfleiksins með flautukörfu en þar var Jovanni Shuler að verki.
Það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem Haukar náðu ágætu forskoti en þeir leiddu með níu stigum 82-73 þegar sex og hálf mínúta var eftir. Hólmarar hleyptu Haukum ekki lengra frá sér og fóru að minnka muninn.
Haukar gátu komist sjö stigum yfir þegar um tvær og hálf mínúta var eftir en Haukar geiguðu á sniðskoti og Hólmarar keyrðu yfir og minnkuðu muninn í þrjú stig og staðan orðin 86-83. Næstu stig komu öll frá Snæfellingum sem juku muninn í 86-91 þegar um hálf mínúta var eftir. Haukar náðu ekki að jafna og Snæfell vann 89-93.
Slæmur tveggja mínútna kafli á lokasprettinum varð liðinu að falli þar sem nokkrir boltar féllu ekki með okkar strákum. En þrátt fyrir tap í kvöld átti liðið skilið að taka tvö stig en körfuboltaguðirnir geta stundum verið miskunnarlausir.
Liðið sýndi flottan leik í kvöld og er augljóst að það kemur vel undirbúið fyrir veturinn. Margir leikmenn liðsins litu vel út. Sóknarleikurinn gekk afar vel þar sem gott flæði var og margir leikmenn lögðu sitt af marki. Af þeim níu leikmönnum sem spiluðu í kvöld skoruðu fjórir yfir 10 stig og tveir til viðbótar voru með níu stig.
Haukaliðið lítur vel út og það er spennandi vetur framundan á Ásvöllum.
Næsti leikur strákanna í deildinni er á mánudag þegar við heimsækjum Njarðvíkinga en þeir unnu stórsigur í kvöld á frændum okkar úr Val.
Áfram Haukar
Umfjöllun um leikinn á Karfan.is
Myndasafn úr leiknum á Karfan.is
Viðtöl við Inga Þór þjálfara Snæfells og Óskar Magnússon leikmann Hauka á Karfan.is