Guðmundur Mete til liðs við Hauka

Haukar

Haukar hafa fengið góðan liðstyrk fyrir komandi tímabil í Pepsi-deildinni að ári en varnarmaðurinn Guðmundur Viðar Mete hefur skrifað undir samning hjá Haukum en hann kemur frá systrafélagi Hauka, Val. Guðmundur gerir tveggja ára samning við Hauka.

Guðmundur er sem fyrr segir varnarmaður og lék með Val á síðasta tímabili en meiðsli voru að hrjá hann og lék hann 12 leiki í Pepsi-deildinni og 2 í Visa-bikarnum. Þar áður lék hann fjögur tímabil með Keflavík og var til að mynda bikarmeistari með liðinu. Áður en Guðmundur gekk til liðs við Keflavík um mitt tímabil árið 2005 hafði hann leikið um árabil í Svíþjóð með Malmö og Norrköping.

Það er því greinilegt að Guðmundur kemur í lið Hauka með mikla reynslu en hann á að baki fjölmarga unglingalandsleiki fyrir Ísland.

Þetta er fyrsti leikmaðurinn sem gengur til liðs við Hauka eftir að hafa tryggt sér þáttöku í Pepsi-deildinni á næsta ári, en það eru fleiri leikmenn í sigtinu góða og munu fréttir af því birtast hér á síðunni um leið og eitthvað verður staðfest.

Við bjóðum Guðmund Viðar Mete velkomin í Hauka.