Guðrún Jóna Kristjánsdóttir hefur verið ráðin þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Haukum í knattspyrnu en hún hefur verið í fullu starfi hjá knattspyrnudeild Hauka síðan haustið 2019.
Þá verður Jóna áfram aðal þjálfari 2. flokks kvenna og tæknilegur ráðgjafi 3. flokks kvenna ásamt því að sinna séræfingum fyrir afrekshópa sem og fyrir Afreksskóla Hauka og Afrekslínu Hauka.
Jóna hefur verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna síðustu þrjú tímabil og hefur á þeim tíma einnig verið í þjálfarateymi 2. og 3. flokks kvenna þannig að hún þekkir vel til ungra og efnilegra leikmanna félagsins.
Guðrún Jóna sem spilaði tæplega 200 leiki með meistaraflokk KR og á að baki 25 A landsleiki hefur m.a. þjálfað meistaraflokka KR, FH og Þróttar R.
Markmið knattspyrnudeildar Hauka með ráðningu Jónu er að annars vegar að vera með samkeppnishæft lið sem á að berjast um sæti í Pepsí Max deild kvenna og hins vegar að þróa áfram unga og efnilega leikmenn félagsins.