Gunnar Ásgeirsson og Benis Krasniqi í Hauka

Fyrr í vikunni skrifuðu tveir leikmenn undir samning við Hauka. Um er að ræða þá Gunnar Ásgeirsson sem kemur til liðsins frá Hamri og Benis Krasniqi sem kemur frá HK en hann spilaði þó aldrei með liðinu þar sem hann fékk ekki leikheimild.

Eins og fyrr segir kemur Gunnar Ásgeirsson til Hauka frá Hamri, hann lék alla leikina með Hamri í sumar og skoraði eitt mark. Hann er 24 ára og hefur auk þess að leika með Hamri leikið með meistaraflokki Hvatar og Stjörnunnar en hann á að baki yfir 60 meistaraflokksleiki. Hann spilar oftar en ekki fremur aftarlega á vellinum.

Benis Krasniqi kemur frá Kosovo og á nokkra óopinbera landsleiki að baki með landsliði Kosovo, hann er 27 ára varnarmaður. Hann þekkir vel það að sigra en hann hefur þrisvar sinnum á síðustu fjórum árum orðið meistari í Kosovo með félagsliði sínu. Hann kom til Íslands í sumar og skrifaði undir samning við HK en fékk aldrei leikheimild. 

Því er orðið ljóst að nú þegar hafa þrír nýjir leikmenn gengið til liðs við Hauka en áður hafði Albert Högni Arason gengið til liðsi við Hauka frá Njarðvík.

Frekari upplýsingar um leikmannamálin hjá meistaraflokki munu verða birtar hér á síðunni á næstu dögum.