Hafþór Þrastarson gengur til liðs við Hauka

HaukarTilkynnt var um það í gær, að varnarmaðurinn Hafþór Þrastarson hafi skrifað undir samning við Hauka. Hafþór kemur til liðs við Hauka frá FH. Hann lék síðan sinn fyrsta leik fyrir Hauka í gærkvöldi í 1-2 tapi gegn Leikni R. í æfingaleik sem fram fór í Egilshöllinni.

Hafþór er 22 ára varnarmaður sem hefur auk þess að spila með FH leikið með KA og Selfossi undanfarin ár, á láni. Hafþór er sjöundi leikmaðurinn sem gengur til liðs við Hauka á þessu undirbúningstímabili og það er greinilegt að Ólafur Jóhannesson þjálfari liðsins og Sigurbjörn Örn Hreiðarsson aðstoðarmaður hans, eru nú komnir með góðan her af leikmönnum sem munu spila með Haukum í 1.deildinni á næsta ári.

Hafþór er uppalinn í FH og lék sinn fyrsta mótsleik fyrir FH árið 2010 en þá lék hann 8 leiki í Pepsi-deild karla auk nokkra leikja í bikarkeppninni og Meistarakeppni KSÍ. Sumarið 2011 var hann síðan lánaður til KA og lék þar 21 leik í deild og bikar og þótti standa sig þar með prýði og vildu KA menn til að mynda halda honum eftir það tímabil. Í fyrra var hann síðan í herbúðum FH þangað til hann var lánaðar um mitt sumar til Selfossar og lék með þeim sex leiki, en Selfyssingar voru í harðri botnbaráttu og féllu að lokum úr Pepsi-deildinni.

Hafþór er annar varnarmaðurinn sem gengur til liðs við Hauka frá FH á stuttum tíma, en Helgi Valur Pálsson gekk eins og áður hefur verið greint frá til Hauka fyrir tveimur vikum.

 Við bjóðum Hafþóri velkominn í Hauka og óskum honum vel farnaðar í rauða-Hauka búningnum.