Stjórn handknattleiksdeildar Hauka hefur valið Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur og Sigurberg Sveinsson sem handknattleiksfólk Hauka árið 2008. Þau eru því í kjöri til íþróttafólks Hauka sem verður valið á Gamlársdag.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir er 29 ára hornamaður sem hefur verið lykilleikmaður í meistaraflokksliði Hauka um langt árabil. Hún á að baki um 90 landsleiki með A-landsliði Íslands. Hanna hefur farið á kostum á haustmánuðum þar sem hún hefur skorað 138 mörk í 12 leikjum N1 deildarinnar og Eimskipsbikarsins. Hanna hefur sömuleiðis verið atkvæðamikil með íslenska landsliðinu þar sem hún hefur skorað 64 mörk í 9 leikjum á þessu ári, þar af 32 mörk í einungis 4 leikjum í undankeppni HM í Póllandi. Á síðasta tímabili gerði Hanna 106 mörk í N1 deildinni. Hanna er uppalin Haukakona, baráttujaxl af bestu gerð og ein af bestu handknattleikskonum þjóðarinnar.
Sigurbergur Sveinsson er 21 árs rétthend skytta sem þrátt fyrir ungan aldur er einn af burðarásunum í Íslandsmeistaraliði Hauka í handknattleik. Hann hefur sömuleiðis fengið vaxandi tækifæri hjá A-landsliði Íslands þar sem hann hefur leikið tæplega tíu leiki og er skemmst að minnast vaskrar framgöngu í nýafstöðnum leikjum gegn heimsmeistaraliði Þjóðverja ytra. Sigurbergur setti mark sitt á þátttöku Hauka í Evrópukeppninni í haust þar sem hann skoraði 35 mörk. Hann hefur sömuleiðis verið atkvæðamikill í N1 deildinni það sem af er þessu tímabili og skorað 61 mörk í 10 leikjum en á síðasta tímabili skoraði hann 91 mark. Sigurbergur er uppalinn Haukamaður, framúrskarandi handknattleiksmaður og vel til þess fallinn að vera fyrirmynd ungra handknattleiksáhugamanna í Hafnarfirði.
Mynd: Hanna Stefánsdóttir hefur farið á kostum í vetur – stefan@haukar.is