Eins og fram hefur komið hér á síðunni fór fram í dag deildarbikar karla og kvenna í Laugardalshöll. Þar áttu Haukar tvo fulltrúa, eitt karlalið og eitt kvennalið. Það hefur áður komið fram á heimasíðunni að kvennaliðið er komið í úrslitaleikinn sem fram fer á morgun en liðið mætir þar liði Stjörnunnar sem sigraði Valsstelpur með einu marki í dag. Haukastrákarnir eru einnig komnir í úrslit eftir sigur í æsispennandi leik gegn Val og mæta þar liði Fram sem sigraði lið HK í hörkuleik.
Haukastrákarnir byrjuðu betur og skoruðu fyrsta markið og voru ávallt skrefi á undan fyrstu mínúturnar. Þegar um 10 mínútur voru liðnar af leiknum tóku Valsmenn hins vegar við sér og náðu forystunni og héldu henni út fyrri hálfleikinn. Munurinn var þó aldrei mikill og var staðan í hálfleik 13 – 11, Val í vil.
Síðari hálfleikurinn þróaðist mjög svipað og sá fyrri. Haukastrákar komust ekki yfir fyrr en í stöðunni 18 – 17 en Valsmenn bitu frá sér og komust fljótlega marki yfir aftur. Þannig gengu síðustu 10 mínútur leiksins, liðin skiptust á að vera með forystuna og var síðasta mínútan æsispennandi. Staðan var 25 – 25 og rétt rúm mínútu eftir. Valsmenn höfðu boltann og tóku langa sókn. Þeir komu skoti á markið þegar um 30 sekúndur voru eftir en Birkir Ívar varði. Haukar brunuðu í sókn og fengu aukakast þegar 9 sekúndur voru eftir. Aron tók þá leikhlé og lagði á ráðin með strákunum. Freyr tók fríkastið, gaf boltann á Sigurberg sem gaf boltann yfir á Arnar Jón sem skoraði markið rétt í þann mund sem bjallan gall. Haukar fóru því með sigur af hólmi 26 – 25 og leika til úrslita gegn Fram sem sigraði HK í hörkuleik fyrr í dag.
Markahæstur í liði Hauka í dag voru Arnar Jón og Sigurbergur með 6 mörk hvor og varði Birkir Ívar 17 skot í markinu. Hjá Val var Arnór Gunnarsson markahæstur með 10 mörk og varði Ólafur Gíslason 12 skot í marki þeirra.
Það verður því sannkallaður Haukadagur í Höllinni á morgun. Stelpurnar leika til úrslita klukkan 13:30 og strákarnir klukkan 15:50. Við hvetjum alla til að mæta á völlinn og styðja okkar fólk til sigurs.