Nú er komið stutt frí á deildarkeppni meistaraflokka Hauka í handbolta vegna þess að um næstu helgi fer fram Final 4 í bikarnum. Því miður eru Haukaliðin ekki með í þetta skiptið og eru þau því á leið í stutt frí frá leikjum en öll liðin fóru á góðum nótum inn í fríið.
Meistaraflokkur karla fóru á góðum nótum inn í bikarfríið en þeir mættu Stjörnunni síðasta fimmtudag. Úr varð hörkuleikur þar sem að Stjarnan var með frumkvæðið framan af en undir lok fyrri hálfleiks gáfu Haukastrákar aðeins í en jafnt var þó í hálfleik 14 – 14. Haukar byrjuðu seinni hálfleik af krafti og náðu fljótlega 3 – 4 marka forskoti sem dugði þeim út leikinn þótt að Stjarnan hafi komið með áhlaup á síðustu mínútunum þá lönduðu Haukar sigri 29 – 28. Adam Haukur átti stórleik fyrir Hauka en hann skoraði 8 mörk líkt og Heimir Óli sem flottur að vanda. Næsti leikur Hauka er laugardaginn 16. mars þegar boðið verður upp á tvíhöfða í Schenkerhöllinni en strákarnir eiga seinni leikinn kl. 18:00 á móti ÍR.
Strákarnir í U-liðinu eru að gera flotta hluti í Grill 66 deildinni en þeir mættu ÍBV um helgina í hörkuleik. Jafnræði var á liðinum nánast allan leikinn en svo um miðbik seinn hálfleiks gáfu ungu Haukastrákarnir í og unnu að lokum 31 – 27 sigur. Guðmundur Bragi Ástþórsson átti stórleik fyrir Hauka en hann skoraði 12 mörk og á eftir honum komu Hallur Kristinn, Gunnar Dan og Kristófer Máni allir með 4 mörk. Ungu strákarnir eru nú í 2. sæti deildarinnar með 19 stig úr 14 leikjum og eru þeir 2 stigum á undan Víkingi og Val U en Fjölnir er á toppi deildarinnar með 25 stig. Næsti leikur hjá U-liðinu er fimmtudaginn 14. mars þegar boðið verður upp á Hafnarfjarðarslag í Kaplakrika kl. 20:00.
Meistaraflokkur kvenna fór líka á góðum nótum inn í bikarfríið með sigri á KA/Þór fyrir norðan 24 – 23 síðastliðinn þriðjudag eftir að hafa verið yfir allan leikin en stelpurnar voru mikilir klaufar að vinna ekki leikinn stærra því að þær voru yfir allan leikinn og voru þær mestan hluta leiksins 3 – 4 mörkum yfir. Markahæst Haukastúlkna í leiknum var Berta Rut með 7 mörk og á eftir henni kom Ramune með 5 en einnig átti Ástríður fínan leik í markinu. Með þessum sigri styrktu stelpurnar stöðu sína í 3. sæti deildarinnar með 23 stig úr 17 leikjum 4 stigum á eftir Fram í 2. sæti deildarinnar og 4 stigum á undan ÍBV sem er í 4. sætinu. Nú eru 4 leikir eftir af deildarkeppninni en næsti leikur hjá stelpunum er þriðudaginn 12. mars kl. 19:30 þegar þær mæta HK í Digranesinu. Næsti heimaleikur er svo laugardaginn 16. mars kl. 16:00 þegar að Valur kemur í heimsókn í fyrri leik tvíhöfða í Schenkerhöllinni.