Haukar mættu ÍBV í æfingaleik í Kórnum í dag en leikurinn endaði með 3-2 sigri Haukamanna. Þetta var þriðji æfingaleikur liðsins í vetur en áður höfðu strákarnir unnið 2-1 sigur á Víking R. og tapað 2-1 gegn Fjölni.
Flautað var til leiks kl. 16.30 og var leikurinn ansi fjörugur en fjölmargir stuðningsmenn liðsins höfðu lagt leið sína í Kópavoginn til að sjá leikinn.
Haukar komust yfir með marki frá Arnari Gunnlaugssyni en hann hefur því skorað í öllum leikjum sínum með liðinu. Hilmar Trausti bætti svo öðru marki við með frábæru skoti utan af velli.
Vestmannaeyingarnir náðu að jafna metin í 2-2 en það var svo Enok Eiðsson sem skoraði sigurmarkið með góðu skoti fyrir utan teig.
3-2 sigur því staðreynd og er þetta gott veganesti fyrir komandi tíma hjá Haukaliðinu.