Haukar á toppi N1 deildar karla fram á næsta ár

Akureyringar áttu ekkert svar gegn stórleik Birkis ÍvarsHaukar verða á toppi N1 deildar karla, a.m.k. fram í febrúarmánuð næsta árs. Þetta varð ljóst eftir öruggan sigur á Akureyri fyrir troðfullu húsi norðan heiða í kvöld. Haukastrákarnir spiluðu eins og toppliði sæmir og norðanmenn sáu aldrei til sólar í leiknum. Gestirnir tóku leikinn í sínar hendur strax í byrjun þar sem Elías Már fór á kostum og raðaði inn mörkum í öllum regnboganslitum. Vörnin var nær ókleifur múr fyrir lið Akureyrar, það sem slapp í gegn lenti í hrömmum Birkis Ívars og Haukastrákarnir kaffærðu þá með hraðaupphlaupum. Staðan var 7-15 í hálfleik. Framan af seinni hálfleik bættu Haukar í og munurinn varð skjótt tíu mörk. Það var ekki fyrr en á lokamínútunum sem Akureyri náði að minnka muninn og leiknum lauk 20-24. Birkir Ívar fór á kostum og varði 25 skot.

Strákarnir mættu gríðarlega einbeittir til leiks á meðan að lið Akureyrar virkaði yfirspennt. Lykilmenn í þeirra liði á borð við Heimi Árna, Árna Sigtryggs og Jónatan Magnússon komust ekki áfram gegn sterkri vörn Hauka og markvörslu Birkis og allur máttur fór úr leik norðanmanna. Leikmenn Hauka voru hins vegar einbeittir í að ná því markmiði að komast á topp deildarinnar og njóta þess að spila á erfiðum útivelli fyrir framan velstemmda og þéttsetna áhorfendapallana í gömlu Íþróttahöllinni. Elías Már svaraði heldur betur þeim sem hafa sett spurningarmerki við ógnina frá hægri skyttustöðunni og raðaði mörkum inn frá byrjun. Grunnurinn að sigrinum var lagður með vörn og markvörslu.

Næsti leikur strákana er á mánudaginn þegar þeir halda í Kópavog og mæta HK sem lögðu Gróttu í kvöld. Áður en að þeim leik kemur taka stelpurnar á móti KA/Þór á sunnudaginn á Ásvöllum kl. 16.

Mörk Hauka: Elli 7, Björgvin 6, Einar Örn 2, Freyr 2, Pétur 2, Heimir Óli 1, Stebbi 1, Gummi 1, Beggi 1

Umfjöllun um leikinn:

Almenn umfjöllun á Vísi
Viðtal við Jónatan Magnússon á Vísi
Viðtal við Elías Má á Vísi
Fylgst með gangi mála á mbl.is
Sport.is
RÚV