Haukar eru komnir áfram í 8 liða úrslit bikarkeppni KKÍ eftir að liðið lagði Snæfellsmenn í gærkvöld, 90-84. Eins og svo oft áður byrjuðu Haukar ekki vel og lentu til að mynda 16 stigum undir í öðrum leikhluta. Menn fundu þó taktinn og minnkuðu muninn jafnt og þétt og ekki munaði nema sex stigum á liðunum í hálfleik.
Haukar jöfnuðu og komust yfir undir lok þriðja leikhluta en Snæfellingar jöfnuðu metin með þriggja stiga sókn alveg í lok leikhlutans. Staðan var jöfn 66-66 þegar haldið var inn í fjórða leikhluta og var lokakaflinn hin mesta skemmtun. Haukar voru með frumkvæðið allan tímann og munurinn var aldrei meiri en ein til tvær körfur. Haukar leiddu með sex stigum þegar lítið var eftir en Snæfellingar minnkuðu muninn í tvö stig þegar innan við mínúta var eftir og fengu tækifæri á að jafna en skot þeirra geigaði.
Snæfellingar hófu að brjóta til að koma Haukamönnum á línuna og freista þess að jafna leikinn. Dæmd var óíþróttamannsleg villa á þá og tæknivilla í kjölfarið og gerði Svavar Páll Pálsson endalega út um leikinn á vítalínunni. Haukar sigruðu að lokum 90-84 og eru komnir áfram í 8 liða úrslit.
Terrence Watson var stigahæstur Haukamanna með 18 stig, 12 fráköst og 6 varin skot og Emil Barja var með 16 stig og 7 stoðsendingar. Svavar Páll Pálsson og Kári Jónsson áttu flottar innkomur og voru með 14 stig hvor um sig en Kári var einnig með 7 stoðsendingar.
Tengdar fréttir:
Myndasafn á karfan.is
Haukar kláruðu Snæfellinga á lokasprettinum
Haukar áfram eftir baráttusigur