Haukar áfram í bikarnum eftir sigur á Gróttu

HaukarHaukar tryggðu sér sæti í 32-liða úrslitum Valitor-bikarsins í kvöld eftir 2-0 sigur á 1.deildarliði Gróttu en leikið var á Seltjarnarnesi.

Það voru þeir Ásgeir Þór Ingólfsson og Úlfar Hrafn Pálsson sem skoruðu sitthvort markið í sitthvorum hálfleiknum. 

Haukar byrjuðu með vindinn í baki og sóttu stíft allan fyrri hálfleikinn og voru virkilega ákveðnir til að byrja með. Það skilaði sér með marki strax á 16.mínútu og það mark átti Ásgeir Þór Ingólfsson og Úlfar Hrafn Pálsson alveg einir.
Ásgeir lagði boltann upp hægri vænginn og keyrði síðan sjálfur inn í teig þar sem hann fékk boltann aftur frá Úlfari og lagði Ásgeir boltann í fjærhornið, innan fótar, óverjandi fyrir markvörð Gróttu, Kjartan Ólafsson. Haukar héldu áfram að sækja í fyrri hálfleik en staðan í hálfleik 0-1, Haukum í vil.
Seinni hálfleikurinn byrjaði ekki nægilega vel, Gróttumenn virtust vera með öll völd á vellinum og voru Haukamenn lengi að koma sér aftur inn í leikinn. En þegar leið á seinni hálfleikinn komust Haukar meira inn í leikinn og það skilaði marki á 76.mínútu en þá átti Ásgeir skot í varnarmann sem fór í fætur á nýja framherja okkar Haukamanna, Ísak Örn Þórðarssonar sem var inn í teig og hélt boltanum vel og sendi síðan boltann út á Úlfar Hrafn Pálsson sem skaut góðu skoti með gervigrasinu og í netið fór boltinn.
Eftir þetta var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi og nokkuð þæginlegur 2-0 sigur Hauka því staðreynd. Sigurinn hefði alveg getað orðið stærri en Haukar skoruðu fimm sinnum í leiknum en þrjú markana voru dæmd ólögleg vegna rangstæðu, tvö frá Ísaki Erni og eitt frá varamanninum, Hilmari Rafni Emilssyni.
Þrír leikmenn í byrjunarliðinu voru að spila sinn fyrsta opinbera leik fyrir meistaraflokk Hauka, þeir Aron Freyr Eiríksson, Ísak Örn Þórðarson og Björgvin Stefánsson sem er einungis 17 ára gamall. 

Byrjunarlið Hauka: Daði Lárusson – Kristján Ómar Björnsson, Daníel Einarsson, Guðmundur Mete, Gunnar Ormslev (Jónas Bjarnason(’86)) – Aron Freyr Eiríksson, Hilmar Trausti Arnarsson, Ásgeir Þór Ingólfsson, Úlfar Hrafn Pálsson (Hilmar Rafn Emilsson(’89)) – Björgvin Stefánsson – Ísak Örn Þórðarson. 

Ummæli Hilmars Trausta Arnarssonar, fyrirliði Hauka eftir leikinn:

Spilamennskan var fín í fyrri hálfleik. Við reyndum að halda boltanum niðri þó að þolinmæðin hefði mátt vera meiri. Menn voru að reyna fara eftir því skipulagi sem lagt var upp með. Í síðari hálfleik jók í vindinn og erfitt var að halda boltanum innan liðsins. Þegar veðrið spilar þannig inn í og við að leika á móti vindinn þá er það liðið sem sýnir meiri baráttu sem verður oftast ofan á í svona leik. 

Mér fannst við berjast vel og skipulagið var mjög gott. Þeir fengu ekkert færi í leiknum, einu skotin þeirra voru úr aukaspyrnum langt utan af velli sem er mjög jákvætt. Fínt að byrja á sigri, markmiðið hjá okkur er að fara í hvern einasta leik til þess að vinna hann og þeta var bara fyrsta skrefið í löngu og vonandi skemmtilegu tímabili. Nú er bara að byggja á þessu og mæta svo tilbúnir í næsta leik sem ég tel verða mun erfiðari en þessi og við verðum að spila betur en í þessum leik ætlum við að fá eitthvað út úr þeim leik. En eins og ég segi, mjög jákvætt að byrja á sigri og halda hreinu.

Næsti leikur Hauka og jafnframt fyrsti leikur Hauka í 1.deildinni í sumar er gegn Víking Ólafsvík í Ólafsvík á laugardaginn, næstkomandi en þar er einmitt Kristján Óli Sigurðsson að spila en hann lék með Haukum fyrri partinn af síðasta tímabili. Einnig þekkir Magnús Gylfason þjálfari Hauka vel til í Ólafsvíkinni enda ólst hann þar upp.