Haukastelpur tryggðu sér sigur í Dominos deild kvenna í gær eftir nokkuð öruggan sigur á Hamri, 87 – 73.
Þó svo að sigurinn hafi verið öruggur sýndu Hamarsstúlkur góð tilfþrif og mikla baráttu og eftir að Haukar höfðu náð um 17 stiga mun í fyrri hálfleik þá börðust þær aftur inní leikinn og náðu muninum niður í 1 stig í lokafjórðungnum en Haukar sýndu mátt sinn í lokin og lönduðu sanngjörnum sigri, sem tryggði þeim deildarmeistaratitlinum.
Helena Sverrisdóttir átti magnaðan leik og lauk leik með þrefalda tvennu, 30 stig, 20 fráköst og 15 stoðsendingar, ótrúlegur leikmaður. Einnig sýndi hin unga Dýrfinna Arnardóttir skemmtilega takta og var mjög öflug í fjórða leikhluta er Haukar náðu aftur upp muninum.
Við óskum stelpunum til hamingju með þennan frábæra árangur.
Haukar munu spila við Grindavík í undanúrslitum, en það þarf þrjá sigurleiki til að komast í úrslit. Fyrsti leikur verður miðvikudaginn 30 mars í Schenkerhöllinni.