Haukar leika til úrslita um bikarmeistaratitilinn 27. febrúar nk. Þetta varð ljóst þegar Haukar sigruðu HK örugglega á Ásvöllum, 26-20, á laugardag. Strákarnir mættu gríðarlega einbeittir til leiks og virtust hreinlega ætla að kafsigla gestina frá Kópavogi. Sigurbergur Sveinsson var óstöðvandi í fyrri hálfleik og skoraði mörk í öllum regnboganslitum. Varnarleikur liðsins var mjög þéttur og Birkir Ívar sterkur að vanda. HK skoraði einungis eitt mark á fyrstu fimmtán mínútum leiksins og áttu engin svör gegn sterkri 5-1 vörn þeirra rauðklæddu. HK-liðið náði aldrei að tefla sigri Hauka í tvísýnu og lauk leiknum með sex marka mun. Það verður því Haukadagur í Höllinni. HK liðið kemur aftur í heimsókn á Ásvelli á miðvikudag í næstu viku.
Bikarmeistaratitill er eitt af aðalmarkmiðum Haukaliðsins fyrir veturinn. Strákarnir virtust staðráðnir í að taka skref í átt að því markmiði og mættu mjög einbeittur til leiks. Sigurbergur, sem hefur haft hægt um sig í síðustu leikjum, tók heldur betur af skarið og skoraði fimm af sex fyrstu mörkum liðsins. Framliggjandi vörn Hauka virtist koma HK-liðinu í opna skjöldu og dró allan mátt úr sóknarleik liðsins. Valdimar Þórsson var ekki skugginn af sjálfum sér og skoraði einungis tvö mörk sem telst til tíðinda á þeim bænum. Sverrir Hermansson var markahæstur gestanna með sex mörk en Sveinbjörn Pétursson var þeirra bestur með liðlega tuttugu skot varin, þar af þrjú eða fjögur vítakost.
Haukar komust í 8-1 um miðbik fyrri hálfleiks og höfðu fimm marka forystu í hálfleik. Munurinn varð aftur sjö mörk 17-10 snemma í seinni hálfleik og varð aldrei minni en fimm mörk í hálfleiknum. Sigurbergur Sveinsson var markahæstur með 8 mörk, en Björgvin og Elías Már skoruðu fimm mörk hvor. Birkir Ívar varði 18 skot í marki Hauka.
Næsti leikur Haukaliðsins er á miðvikudaginn, 17. febrúar, þegar HK kemur á ný í heimsókn en að morgni fimmtudags halda strákarnir til Spánar þar sem þeir mæta Naturhouse La Rioja í 16 liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða.