Eins og greint var hér á síðunni fyrr í dag er stórdagur fyrir Haukafólk í dag en Haukastelpurnar leika gegn FH í N1-deild kvenna og svo í kvöld verður einn stærsti leikur ársins þegar Haukar taka á móti þýska stórliðinu Flensburg.
Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19:30 og verður að sjálfsögðu leikinn á bláa dúknum á Ásvöllum. Mikið hefur verið fjallað um leikinn í fjölmiðlum landsins að undanförnu og það er alveg ljóst á orðum Aron Kristjánssonar þjálfara Hauka að liðið ætlar sér að spila til sigurs í kvöld, en fyrir keppnina sagði Aron að liðið stefndi á sigur í öllum heimaleikjunum og það hefur gengið eftir hingað til.
Aron hefur einnig reynt að koma því á framfari að Haukar eru fulltrúar Íslands í Meistaradeildinni og segir að þeir séu ekki bara að fara spila sem Haukar heldur einnig sem Ísland og vonast hann því eftir stuðningi frá íslenskrum áhorendum en ekki einungis Haukafólki.
Þessi leikur er ekki bara þýðingarmikill fyrir Hauka heldur einnig afar þýðingarmikill fyrir Flensburgarliðið því ef þeir tapa þessum leik þá eiga þeir í hættu að komast ekki áfram í 16-liða úrslitin. Það má ekki gleyma því að ótrúleg úrslit hafa litið dagsins ljós hjá íslenskum liðum í Meistaradeildinni og hver veit nema enn ein draumaúrslitin liti dagsins ljós í kvöld á Ásvöllum ?
Hinn smávaxni Svíi Ljubomir Vranjes segir á heimasíðu liðsins að liðið muni ekki vanmeta Haukana í leiknum en telur þó að liðið ætti að fara með öruggan sigur af hólmi, við tökum það auðvitað ekki mál.
Miðaverð á leikinn er 1000 krónur fyrir fullorðna en frítt er fyrir 15 ára og yngri. Það er því um að gera að taka alla fjölskylduna með á leikinn. Mætum svo í RAUÐU á völlinn og myndum góða stemmingu á pöllunum.
Leikurinn verður svo að öllum líkindum textalýstur hér á Haukar.is fyrir landsbyggðina og það fólk ekki sér sér fært til að mæta á leikinn. Textalýsingin mun hefjast korteri fyrri leik eða svo. Við bendum fólki á það að leikurinn er EKKI sýndur í sjónvarpinu á Íslandi.