Haukar hefja leik að nýju í N1 deild karla

Sigurbergur og félagar hefjast handa í kvöld eftir EM hléiðMeistaraflokkur karla hefur leik að nýju í N1 deildinni í kvöld þegar lærisveinar Einars Jónssonar í Fram koma í heimsókn á Ásvelli. Fram gekk ekki sem skyldi í deildinni fyrir áramót og er sem stendur á botni deildarinnar með einungis tvö stig. Liðið er samt vel mannað og þjálfaraskipti áttu sér stað þegar Einar tók við af Viggó Sigurðssyni fyrr í vetur. Safamýrardrengirnir gætu því reynst okkar mönnum skeinuhættir og búast má við spennandi leik í kvöld. Stíf dagskrá bíður Haukastrákanna í þessum mánuði hvort sem litið er til N1 deildarinnar, Eimskipsbikarsins eða Evrópukeppninnar.

Haukar sigruðu fyrri leik þessara liða í Safamýrinni 32-34 í lok október. Fram sigraði svo HK í næsta leik í byrjun nóvember en hefur síðan borið lægri hlut í öllum leikjum liðsins. Þeir rauðklæddu náðu hins vegar afar góðum árangri fyrir áramót. Haukar eru í efsta sæti N1 deildarinnar, komnir í fjögurra liða úrslit Eimskipsbikarsins, sigurðu deildarbikarinn og komust áfram í Evrópukeppninni. Framundan eru því fjölmargir spennandi leikir í deild, bikar og Evrópukeppni. Við hvetjum Haukafólk og aðra áhugamenn um handbolta til að halda handboltafárinu áfram og fjölmenna á leiki í N1 deildinni.