Haukar Íslandsmeistarar 2018

Haukar urðu í gærkvöldi Íslandsmeistara í Dominos deild kvenna 2018 eftir stórkostlegan leik í þétt setinni Schenkerhöllinni.

Leikurinn var hin besta skemmtun og spennan eftir því þar sem liðin skiptust á forystunni í fyrri hálfleik og munurinn var aldei meiri en 5 stig á milli liðanna.
Í byrjun þriðja leikhluta náðu Haukar góðu „rönni“ þar sem Sigrún setti þrjár 3ja stiga körfur og Þóra eina og náðu 11 stiga forystu sem Haukar létu ekki af hendi það sem eftir lifði leiks. Valstúlkur settu þó mikla spennu í leikinn með þvi að ná muninum niður í 2 stig í lokakaflanum en Haukar voru snemma komin með skotrétt í 4 leikhluta sem hjálpaði liðinu mikið til þess að landa sigrinum.

Allt liðið spilaði gríðarlega vel í þessum leik og liðið fékk frábæra viðbót fyrir þennan leik, en Dýrfinna, sem hafði verið meidd frá því í febrúar er hún fékk höfuðhögg koma aftur inní liðið og sýndi í þessum leik hve góður og mikilvægur leikmaður hún er. Sigrún var frábær á báum endum þó svo að hún sé einungis 16 ára og er þar gríðarlegt efni og Whitney stóð fyrir sínu.
Kona leiksins var þó Helena Sverrisdóttir. Hún er magnaður leikmaður og skilaði enn einni þrennunni í þessum leik og var með þrennu að meðaltali í úrslitaeinvíginu sem er ótrúleg tölfræði.
En þetta var liðssigur og loksins kom sá stóri á heimavelli.

Valsliðið á hrós skilið, þær spiluðu mjög vel og lögðu sig fram. Tvær uppaldar Haukastelpur spila stórt hlutverk í Valsliðinu, Guðbjörg Sverrisdóttir og Dagbjört Samúelsdóttir og stóðu þær sig báðar vel í einvíginu og var Guðbjörg okkur sérstaklega erfið í þessari seríu.

Til hamingju Haukar.