Haukar tryggðu sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í 1. deild kvenna eftir magnaðan 5-1 sigur gegn Grindavík. Bæði lið höfðu tryggt sér sæti í Pepsí deildinni á næsta ári þannig að leikurinn snérist fyrst og fremst um heiðurinn og að fá bikar í safnið. Í kjölfarið var blásið í smá hátíð á Ásvöllum þar sem stelpunum var vel fagnað.
Grindavík komst í 1-0 á þriðju mínútu leiksins en Þórdís Elva Ágústsdóttir jafnaði leikinn með góðu skoti á 26. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Það voru e.t.v. ekki margir sem bjuggust við því að okkar stúlkur væru komnar í 4-1 eftir 12 mínútur í seinni hálfleik . Dagrún Birta Karlsdóttir kom okkur í 2-1 á 52. mínútu og Heiða Rakel Guðmundsdóttir bættti við þriðja markinu tveimur mínútum síðar eftir að Hildigunnur Ólafsdóttir átti skot í stöng. Hildigunnur bætti svo við fjórða markinu á 57. mínútu. Alexandra Jóhannsdóttir setti svo punktinn algjörlega yfir i-ið þegar hún skoraði með löngu skoti á 90. mínútu. Glæsilegur sigur okkar stúlkna staðreynd!
Það var svo sannarlega gaman í Grindavík í kvöld, ekki eingöngu út af úrslitum leiksins heldur einnig þar sem við Hauka fólk áttum hreinlega stúkuna enda fór Rauði herinn á kostum!
Myndirnar að neðan eru frá sigurhátíðinni í kvöld á Ásvöllum en þar var Margrét Björg Ástvaldsdóttir verðlaunuð fyrir að vera leikmaður leiksins í kvöld.
Þá afhentu leikmenn meistaraflokks kvenna þeim Valborgu Óskarsdóttur, fráfarandi formanni meistaraflokksráðs kvenna, og Gunnari Baldurssyni í meistaraflokksráði fyrir ómetanlegt framlag í þágu meistaraflokks kvenna hjá Haukum til fjölda ára.
Ljóst er að árangur sumarsins er eftirtektarverður og í raun stórkostlegur. Stelpurnar urðu Lengjubikarmeistarar í C deildinni í vor og Íslandsmeistarar í dag – tveir bikarar og skemmtilegir og spennandi tímar framundan í Pepsí deildinni!
Viðtöl við okkar fólk á Fótbolti.net eftir leikinn í kvöld:
- Viðtal við Kjartan þjálfara
- Viðtal við Alexöndru
- Viðtal við Heiðu Rakel
- Viðtal við Stefaníu Ósk
- Viðtal við Hildigunni