Haukar urðu íslandsmeistarar í unglingaflokki karla í gær eftir spennusigur á móti KR þar sem úrslit réðust ekki fyrr en á síðustu sek. leiksins, en strákarnir tryggðu sér sigurinn á ævintýralegan hátt í lokin.
Sömu lið kepptu til úrslita í unglingaflokki og kepptu síðustu helgi í drengjaflokki, Haukar – KR, og þá höfðu Haukar líka sigur í spennandi leik þar sem úrslit og þróun leiks var svipuð, Haukar komust yfir í lokin, en KR leitt mest allan leikinn.
Leikurinn í gær var spennandi frá fyrstu mínútu og var ljóst að leikmenn liðanna voru með hátt spennustig þar hittni utan að velli var ekki mjög góð. KR treysti á skot fyrir utan á meðan að Haukar spiluðu mikið inní teig á sína stóru leikmenn. Bæði lið eru skipuð leikmönnum sem hafa verið að spila stór hlutverk hjá mfl. félagsins og var því búist við skemmtilegum leik.
KR leiddi mest allan leikinn og voru mest 10 stigum yfir en þeir leiddu með 4-10 stigum alveg fram að lok þriðja leikhluta er Haukar jöfnuðu, og var jafnt 51-51 fyrir loka fjórðung. KR náði aftur 10 stiga forystu í þeim fjórða en svo fóru Haukastrákarnir í gang og náðu að komast í fyrsta skipti yfir þegar 30 sek. voru eftir og tryggðu sér glæsilegan sigur. 77-73.
Vörnin var frábær í leiknum og spiluðu strákarnir gríðarlega fasta vörn á lykilmenn KR og þar fyrir aftan biðu stóru leikmenn Haukanna eftir þeim. Stóru strákarnir, Kristján Leifur Sverrisson skoraði 24, stig og tók 11 fráköst og svo var Breki Gylfason valinn maður leiksins, en hann skoraði 28 stig og tók 11 fráköst.
Haukar eiga nú Íslandsmeistara í tveim elstu flokkum karlameginn, bikarmeistara og silfurhafa kvennameginn í elsta flokki og má því segja að framtíðin sé björt. Frábært yngri flokka starf deildarinnar er að skila sér og það verður gaman að fylgjast með þessum efnilegu leikmönnum strax á næsta ári.
Áfram Haukar.