Haukar fá topplið Keflvíkinga í heimsókn á miðvikudaginn 25. janúar og hefst leikurinn kl. 19:15 í Dominos deild kvenna.
Haukaliðið hefur verið að spila betur og betur núna eftir áramót og hafa nú unnið 3 af síðustu 4 leikjum á nýju ári. Hið unga lið Hauka vann síðasta leik sinn á móti Val á útvelli og spiluðu þá einstaklega vel í seinni hálfleik og þá sérstaklega í fjórða leikhlutanum. Allt liðið spilaði af krafti og voru grimmar í vörn og boltinn gekk vel á milli leikmanna í sókn.
Ljóst er að nýr erlendur leikmaður Haukaliðsins, Breezy Williams, styrkir liðið gríðarlega. Hún er öflugur leikmaður og var mjög grimm í sínum fyrsta leik og náði í tröllatvennu, 21 stig og heil 18 fráköst og var auk þess með 6 stoðsendingar 5 varin skot. Frábær tölfræði og var gaman að sjá hve vel hún féll inn í leik liðsins og var oft unun að sjá sendingarnar hjá henni.
Haukar og Keflavík eigast einnig við í undanúrslitum bikars og því ljóst að bæði lið munu selja sig dýrt.